Sport

Erfiðara fyrir ís­lenska Cross­Fit fólkið að komast í undanúrslitin 2024

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir með íslenska fánann á heimsleikunum í CrossFit
Anníe Mist Þórisdóttir með íslenska fánann á heimsleikunum í CrossFit Instagram/@anniethorisdottir

CrossFit samtökin hafa tilkynnt fyrirkomulagið í undankeppni heimsleikanna á næsta ári og það er nokkuð um breytingar frá því hvernig hlutirnir gengu fyrir sig á þessu ári.

Miklu fleiri komast þannig áfram eftir CrossFit Open á næsta ári en það verður á móti færri sæti í boði fyrir evrópska fólkið í undanúrslitunum.

Efstu 25 prósentin af keppendum í opna hlutanum fá tækifæri til að keppa í fjórðungsúrslitunum árið 2024 en það voru bara tíu prósent sem komust áfram í ár.

Við þetta fjölgar mikið keppendum í fjórðungsúrslitunum þar sem keppt verður um laus sæti í undanúrslitunum. Að komast þangað verður aftur á móti erfiðara fyrir íslenska CrossFit fólkið af þeirri einföldu ástæðu að það eru færri sæti í boði.

Evrópa átti þannig sextíu sæti í karla- og kvennaflokki í undanúrslitunum í ár en þau verða bara fjörutíu í ár. Fjórðungsúrslitin verða því mun meiri sía en áður. Ástæðan fyrir þessu er að CrossFit samtökin ætla ekki lengur að gera svæðum heimsins mismikið undir höfði.

Í stað þess að svæði heimsins fái mismarga keppendur í undanúrslitunum munu öll fá jafnmarga eða fjörutíu karla og fjörutíu konur. 33 prósent færri komast því í undanúrslitin frá Evrópu og Norður-Ameríku en aftur á móti komast þangað 25 prósent fleiri frá Asíu, Afríku, Suður-Ameríku og Eyjaálfu.

Þau svæði fengu mun færri sæti í ár og var sérstaklega mikil gagnrýni á það að Eyjaálfa, sem hefur átt marga frábæra keppendur í gegnum tíðina, fékk svo fáa. Nú verður allt jafnt.

Tímabilið mun hefjast á hlaupársdag. The open mun standa yfir í þrjár vikur frá 29. febrúar. Fjórðungsúrslitin fara síðan fram í apríl.

Sjálfir heimsleikarnir fara fram í Fort Worth í Texas í Bandaríkjunum frá 8. til 11. ágúst en þar verður aðeins keppt í aðalflokkunum. Aldursflokkakeppnin og keppni fatlaðra er ekki lengur hluti af heimsleikunum heldur haldin sér. Það var ekki hefið upp dagsetningu eða staðsetningu þeirra keppa í þessari tilkynningu frá CrossFit samtökunum.

Hér fyir neðan má sjá útskýringu CrossFit samtakanna á fyrirkomulaginu á keppnistímabilinu 2024.

Ef Instagram færslurnar opnast ekki er gott ráð að endurhlaða fréttina og þá á það að lagast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×