Innlent

Rýmdu bæinn á 95 sekúndum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Um 80 til 90 manns voru í Grindavík þegar bærinn var rýmdur með hraði í dag, að sögn lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Um 80 til 90 manns voru í Grindavík þegar bærinn var rýmdur með hraði í dag, að sögn lögreglustjórans á Suðurnesjum. Vísir/Vilhelm

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, segir að vonandi verði hægt að hleypa Grindvíkingum aftur tímabundið inn í bæinn á morgun. Bærinn var rýmdur í dag þegar tugir íbúa voru þar, en rýmingin tók 95 sekúndur. 

 Til stóð að Grindvíkingar gætu vitjað heimila sinna og muna til klukkan fjögur í dag, en vegna rýmingarboðs frá samhæfingarstöð ríkislögreglustjóra var bærinn rýmdur með hraði. Mögulega verði skipulag varðandi slíka aðgerð endurskoðað.

„Ég geri ráð fyrir því að okkar skipulag fyrir morgundaginn, ef við hleypum inn í bæinn, verði með aðeins öðrum hætti,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Hann á von á því að hægt verði að hleypa fólki aftur í bæinn á morgun, nema hættumat breytist. Það muni liggja fyrir á morgun, rétt eins og mögulegar breytingar á skipulagi aðgerðarinnar.

„Það ákveðum við eftir fund Almannavarna með Veðurstofu í fyrramálið. Ég geri ráð fyrir að þær upplýsingar liggi fyrir upp úr klukkan níu, og þá liggur okkar áætlun fyrir daginn fyrir. 

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Vísir/Baldur

Ekki ástæða til að hætta við úr því sem komið var

Grindavík var rýmd fyrr í dag, en fyrir það hafði staðið til að íbúar Grindavíkur sem ekki áttu þess kost í gær gætu fengið að fara inn í bæinn til að vitja heimila sinna og helstu muna. Rýmingarboð barst síðan lögreglunni á Suðurnesjum frá samhæfingarstöð Ríkislögreglustjóra, þar sem gasmælar hafi sýnt að brennisteinsdíoxíð væri að koma upp úr jörðu nærri Grindavík. 

„Það var brugðist skjótt við, og farið í rýmingu. Það er ágætt frá því að segja að þessi rýming tók 95 sekúndur,“ segir Úlfar. Um 80 til 90 manns hafi verið í bænum á þessum tíma. 

Rýmingin hafi skömmu síðar verið afturkölluð. 

„En úr því sem komið var þá var ekki ástæða til þess að hætta við rýmingu. Það er bara í okkar verklagi og er mín ákvörðun,“ segir Úlfar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×