Neytendur

Ítali fær ís­lenska ullar­peysu sem passaði ekki endur­greidda

Atli Ísleifsson skrifar
Í málinu er deilt um íslenska ullarpeysu sem viðskiptavinurinn hafði keypt í íslenskri vefverslun. Myndin er úr safni og tengist málinu ekki beint.
Í málinu er deilt um íslenska ullarpeysu sem viðskiptavinurinn hafði keypt í íslenskri vefverslun. Myndin er úr safni og tengist málinu ekki beint. Getty

Ónefndri vefverslun hér á landi hefur verið gert að greiða ítölskum viðskiptavini rúmar 50 þúsund krónur eftir að hann hafði skilað ullarpeysu sem hann hafði keypt en aldrei fengið endurgreitt.

Þetta er niðurstaða kærunefndar vöru- og þjónustukaupa sem kvað upp sinn úrskurð í málinu síðastliðinn þriðjudag. 

Í úrskurðinum kemur fram að viðskiptavinurinn, sem búsettur er á Ítalíu, hafi fest kaup á ullarpeysu í umræddri vefverslun þann 27. september 2021 og greitt fyrir hana 350,04 evrur, um 50 þúsund krónur.

Í kvörtun mannsins til kærunefndarinnar kemur fram að peysan hafi ekki passað og hann því sent hana til baka eftir að hafa ráðfært sig við verslunina í gegnum tölvupóst. Hann hafði þá fengið boð frá forsvarsmönnum verslunarinnar um að fá peysu í annarri stærð eða þá að fá endurgreitt.

Eftir að hafa sent peysuna til baka óskaði viðskiptavinurinn eftir endurgreiðslu sem hefði ekki borist þrátt fyrir ítrekanir. Í kjölfarið leitaði viðskiptavinurinn til kærunefndarinnar þar sem þess var krafist að hann fengi kaupverð peysunnar endurgreitt, en hann hafði þá þegar fengið staðfestingu frá starfsmanni vefverslunarinnar um að peysan hefði skilað sér aftur til verslunarinnar. 

Í niðurstöðukafla úrskurðarins segir að meginregla samningaréttar sé sú að gerða samninga beri að halda. Í málinu liggi fyrir að peysan sem hafi verið afhent hafi verið haldin galla.

„Sóknaraðili skilaði peysunni til varnaraðila og hefur varnaraðili ekki endurgreitt flíkina og hefur því ekki staðið við boð sitt. Samkvæmt þessu verður að fallast á kröfu sóknaraðila,“ segir í úrskurðinum.

Vefverslunin skal því endurgreiða viðskiptavininum 350 evrur, rúmlega 50 þúsund krónur, auk málskostnaðsgjald að upphæð 35 þúsund krónur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×