Fótbolti

Ramos rekinn rak­leiðis út af í 29. sinn

Siggeir Ævarsson skrifar
Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja
Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja Vísir/Getty

Varnarmaðurinn margreyndi, Sergio Ramos, fékk að líta rauða spjaldið í viðureign Sevilla og Real Sociedad í dag en þetta var 29. rauða spjaldið sem hann fær á ferlinum.

Ramos, sem er 37 ára, snéri aftur til uppeldisfélags síns fyrir tímabilið og er þetta fyrsta rauða spjaldið sem hann fær þetta tímabilið. Hann fékk upphaflega sitt annað gula spjald í leiknum og þ.a.l. rautt fyrir glæfralega tæklingu undir lok leiksins.

Atvikið var svo skoðað í var, gula spjaldið tekið til baka og hann fékk beint rautt spjald svo að tæknilega fékk Ramos tvö rauð spjöld í sama leiknum.

Til að bíta höfuðið svo endanlega af skömminni fékk liðsfélagi Ramos, Jesús Navas, einnig rautt spjald fyrir mótmæli eftir að Ramos fékk að líta rauða spjaldið. 

Það gekk hvorki né rak hjá Sevilla í þessum leik en Real Sociedad komust yfir með klaufalegu sjálfsmarki markvarðarins Marko Dmitrovic á 3. mínútu.

Í sögu fótboltans er aðeins einn leikmaður sem hefur fengið fleiri rauð spjöld en Ramos, Kólombíumaðurinn Gerardo Bedoya. Honum tókst að næla sér í 46 slík á ferlinum og fékk svo rautt spjald í sínum fyrsta leik sem þjálfari þegar aðeins 21 mínúta var eftir af leiknum.

Að raða inn rauðum spjöldum er sennilega ekki eftirsóknarvert met og næstu menn á listanum á eftir Ramos hafa allir lagt skóna á hilluna svo að vonandi breytist röðin á listanum ekki mikið næstu árin, nema það renni æði á Ramos á lokametrum ferils hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×