Innlent

Maður í dular­gervi hafi fylgst náið með börnum við skóla

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn var á ferð við Norðlingaskóla
Maðurinn var á ferð við Norðlingaskóla Norðlingaskóli

Íbúi í Norðlingaholti í Reykjavík tilkynnti stjórnendum Norðlingaskóla um grunsamlegar mannaferðir við húsnæði skólans. Maður klæddur ljósri hárkollu er sagður hafa fylgst grannt með ferðum nemenda.

Þetta segir í tilkynningu skólastjórnenda til foreldra nemenda við skólann. Þar segir að tilkynnt hafi verið um að maðurinn hafi verið á ferð við Brautaholt, húsnæði miðstigs skólans við Norðlingabraut, í hádeginu.

Hann hafi fylgst grannt með ferðum nemenda á göngustígnum milli Bjallavaðs og Brautarholts. Viðkomandi hafi verið með ljósa hárkollu og þegar íbúinn fór inn í skólann til þess að tilkynna ferðir hans hafi hann yfirgefið svæðið, tekið niður hárkolluna og sest inn í bíl hjá öðrum manni við Bjallavað.

Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu

Íbúinn hafi þegar tilkynnt lögreglu um ferðir mannsins og gefið upp bílnúmer bílsins. Stjórnendur skólans muni nú fylgja málinu eftir við lögregluna.

Þá biðla stjórnendur til foreldra að vera vel vakandi yfir grunsamlegum mannaferðum í hverfinu.

Ekki hefur náðst í fulltrúa lögreglustöðvarinnar á Vínlandsleið við vinnslu fréttarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×