Erlent

Greindu 580 sem höfðu ekki hug­mynd um að þeir væru með HIV

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tónlistarmaðurinn ástsæli stofnaði Elton John AIDS Foundation árið 1992 og hefur safnað yfir 565 milljónum dala fyrir baráttuna gegn alnæmi.
Tónlistarmaðurinn ástsæli stofnaði Elton John AIDS Foundation árið 1992 og hefur safnað yfir 565 milljónum dala fyrir baráttuna gegn alnæmi. Getty/WireImage/Rob Ball

Tónlistarmaðurinn Elton John mun ávarpa þingmenn í Bretlandi í dag og hvetja þá til að gera meira til að ná markmiði stjórnvalda um að útrýma nýjum tilfellum HIV fyrir árið 2030.

Á sama tíma hefur verið greint frá því að 580 einstaklingar sem höfðu ekki hugmynd um að þeir voru með veiruna hafa greinst. 

Verkefnið gekk út á að skima blóðprufur allra sem sóttu ákveðnar bráðadeildir fyrir HIV og lifrarbólgu B og C, nema ef þeir tækju sérstaklega fram að þeir vildu það ekki. Samkvæmt BBC greindust 3.500 með að minnsta kosti eina af sýkingunum þremur, þar af 580 með HIV.

Um var að ræða 33 bráðadeildir í Lundúnum, Manchester, Sussex og Blackpool, þar sem greiningar eru mun algengari en annars staðar í landinu.

Tilgangur verkefnisins var að ná til einstaklinga sem þykja ólíklegir til að gangast undir próf sem eru gagngert hönnuð að skima fyrir HIV og lifrarbólgu en það byggir á reynslunni af blóðprófum sem gerð eru á þunguðum konum.

Samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á Bretlandi greinast 42 prósent af þeim sem greinast með HIV svo seint að verulegar skemmdir hafa þegar orðið á ónæmiskerfinu. Skimanir á blóðprufum sem séu teknar í öðrum tilgangi auki líkurnar á því að einstaklingar greinist snemma.

Aðgerðasinnar hafa kallað eftir því að verkefnið verði útvíkkað til svæða þar sem greiningar eru tíðari en annars staðar, til að mynda í Liverpool. Hvorki stjórnvöld né stjórnarandstaðan hefur hins vegar viljað skuldbinda sig til að fjármagna hið aukna umfang.

Ítarlega frétt um málið má finna á vefsíðu BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×