Innlent

Látinn eftir elds­voðann í Stangar­hyl

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Maðurinn var á fertugsaldri.
Maðurinn var á fertugsaldri.

Karlmaðurinn sem fluttur var með hraði á Landspítalann eftir eldsvoða í Stangarhyl í Árbæ aðfaranótt sunnudags er látinn. Hann var frá Rúmeníu og á fertugsaldri.

Eiríkur Valberg, lögreglufulltrúi hjá miðlægri deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Maðurinn lést um kvöldmatarleytið í gærkvöldi. 

Að sögn Eiríks er rannsókn lögreglu á upptökum brunans vel á veg komin. Hann segir að ekki verði veittar frekari upplýsingar um hana að svo stöddu. Von sé á tilkynningu lögreglu vegna málsins.

Stefán Kristinsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við fréttastofu á sunnudagsmorgun að útlitið hefði ekki verið gott þegar slökkviliði barst tilkynning um brunann. Þegar slökkvilið mætti á staðinn hafði fjöldi fólks komist út úr húsnæðinu.

Til rannsóknar er hvort að kviknað hafi í út frá þurrkara í eldhúsi hússins. Altjón varð á efri hæð hússins í brunanum en húsið var ekki samþykkt íbúðarhúsnæði. Sex manns bjuggu á efri hæðinni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir

Leigusalar verði að átta sig á ábyrgðinni

Slökkviliðsstjóri segir leigusala verða að átta sig á ábyrgð sinni þegar kemur að brunavörnum. Húsið við Stangarhyl í Árbæ, þar sem eldur kom upp í morgun, var ekki samþykkt íbúðarhúsnæði. Einn liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi vegna brunans



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×