Um­fjöllun, við­tal og myndir: Stjarnan-Keflavík 61-89 | Kefla­vík batt enda á sigur­göngu Stjörnunnar

Andri Már Eggertsson skrifar
Stjarnan-Keflavík
Stjarnan-Keflavík Vísir/Hulda Margrét

Keflavík batt enda á sigurgöngu Stjörnunnar þar sem heimakonur höfðu unnið fimm leiki í röð. Gestirnir úr Keflavík byrjuðu afar vel og litu aldrei um öxl og unnn að lokum 61-89. 

Tvö heitustu lið deildarinnar mættust í Garðabænum. Stjarnan sem hafði unnið fimm leiki í röð tók á móti toppliði Keflavíkur sem hafði aðeins tapað einum leik.

Keflavík byrjaði leikinn afar vel Vísir/Hulda Margrét

Keflavík byrjaði leikinn af krafti og gerði fyrstu átta stigin. Stjarnan var í miklum vandræðum varnarlega og Keflavík gat skorað afar auðveldlega í hverri sókn. Keflavík gerði 20 stig á fyrstu fimm mínútunum. Keflavík var átján stigum yfir eftir fyrsta leikhluta 11-29.

Það var jafnræði með liðunum í öðrum leikhluta. Stjarnan hélt áfram að pressa Keflavík allan völlinn líkt og þær fóru að gera um miðjan fyrsta leikhluta. Gestirnir voru nítján stigum yfir í hálfleik 30-49.

Það var hart barist í leik dagsins Vísir/Hulda Margrét

Síðari hálfleikur fór rólega af stað. Bæði lið voru lengi í gang en síðan fór Keflavík að koma boltanum ofan í sem varð til þess að þjalfarateymi Stjörnunnar tók leikhlé. Á fyrstu fimm mínútum síðari hálfleiks gerði Stjarnan aðeins þrjú stig. Staðan var 47-68 þegar haldið var í síðasta fjórðung.

Þrátt fyrir að Stjarnan hafi spilað ágætlega í fjórða leikhluta þá ógnuðu heimakonur aldrei forskoti Keflavíkur og leikurinn endaði með 28 stiga sigri Keflavíkur 61-89.

Það var létt yfir varamannabekk KeflavíkurVísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Keflavík?

Toppliðið fór gríðarlega vel af stað. Keflavík setti tóninn snemma og gerði tuttugu stig á fyrstu fimm mínútunum. Eftir það var á brattann að sækja og munurinn var orðinn of mikill.

Hverjar stóðu upp úr?

Daniela Wallen var allt í öllu hjá Keflavík. Daniela fór á kostum og var næstum því komin með þrefalda tvennu í fyrri hálfleik. Hún endaði með 18 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar.

Elisa Pinzan var einnig öflug. Hún gerði 13 stig, tók 4 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.

Hvað gekk illa

Stjarnan fór afar illa af stað og Keflavík komst snemma átján stigum yfir sem varð til þess að róðurinn var orðinn afar þungur.

Liðin voru með jafn marga tapaða bolta í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik tapaði Stjarnan þrettán boltum á meðan Keflavík tapaði fjórum boltum.

Hvað gerist næst?

Næsta þriðjudag mætast Fjölnir og Stjarnan klukkan 19:15.

Á miðvikudaginn mætast Keflavík og Breiðablik klukkan 19:15.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira