Erlent

Guter­res nýtir sér 99. á­kvæðið og varar við al­gjöru hruni á Gasa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Guterres virðist telja tímabært að grípa til örþrifaráða.
Guterres virðist telja tímabært að grípa til örþrifaráða. epa/Chris J. Ratcliffe

António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur í fyrsta sinn nýtt sér 99. ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna til að vekja athygli Öryggisráðsins á yfirvofandi „hruni“ mannúðarkerfisins á Gasa.

Guterres hefur sent forseta Öryggisráðsins erindi þar sem hann hvetur ráðið til að grípa inn í og gera allt til að koma í veg fyrir stórkostlegan harmleik á svæðinu. Segir hann enga leið til að viðhalda neyðaraðstoð til handa íbúum við núverandi aðstæður og hvetur til tafarlauss mannúðarhlés á átökum.

Samkvæmt 99. grein sáttmála Sameinuðu þjóðanna er forseta heimililt að leita til Öryggisráðsins og upplýsa það um mál sem hann telur ógna friði á heimsvísu. Gert er ráð fyrir að í framhaldi af erindinu muni hann ávarpa ráðið.

Ísraelsmenn hafa þegar gagnrýnt ákvörðun Guterres og segja um að ræða þrýsting á Ísrael. Gilad Erdan, sendifulltrúi Ísrael við Sameinuðu þjóðirnar, segir um að ræða „siðferðilegan botn“ og afstöðu gegn Ísrael.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, greindi frá því í gær að Ísraelsher hefði umkringt hús Yahya Sinwar, leiðtoga Hamas. Sinwar er sagður í felum neðanjarðar en það er yfirlýst markmið hersins að hafa uppi á honum og drepa hann.

Yfirvöld í Bandaríkjunum greindu frá því í gær að samtal hefði átt sér stað um tímalínu aðgerðanna og hvað tekur við í framhaldinu. Heilbrigðisyfirvöld á Gasa, sem eru undir stjórn Hamas, segja 1.200 börn hafa látið lífið á svæðinu eftir að tímabundið hlé rann út á dögunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×