Innlent

„Krakkarnir mæta betur og virðast ekki vera eins þreytt og syfjuð“

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Nemendur í Vogaskóla funduðu með borgarstjóra í dag ásamt nokkur þúsund öðrum grunnskólabörnum.
Nemendur í Vogaskóla funduðu með borgarstjóra í dag ásamt nokkur þúsund öðrum grunnskólabörnum. Vísir/Vilhelm

Unglingar sem hafa tekið þátt í tilraunaverkefni í Reykjavík og mætt seinna í skólann en jafnaldrar sínir segjast eiga auðveldara með einbeitingu og sofa betur. Ákveðið hefur verið að skóladagur allra unglinga í Reykjavík byrji seinna frá og með næsta hausti.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fundaði með sjö þúsund unglingum í Reykjavík í gegnum fjarfundarbúnað í morgun þar sem þessi ákvörðun var rædd. Gert er ráð fyrir að breytingarnar taki gildi frá og með næsta hausti og byrjar skólahald þá í fyrsta lagi klukkan 8:50 á unglingastigi í skólum borgarinnar. Vonir standa til að þetta muni bæta svefn og líðan barnanna.

„Breytingin er til þess að lengja þennan svefntíma. Við sjáum að um og yfir helmingur ungs fólks á þessum aldri eru að sofa of stuttan tíma. Við vitum að það hefur áhrif á einbeitingu, minni, nám og svo framvegis,“ segir Dagur.

Í meira en ár hafa nemendur í Vogaskóla tekið þátt í tilraunaverkefni til að sjá hvernig það virkar að láta börnin mæta seinna í skólann.

„Bæði nemendur og starfsfólkið er ánægt með þessa breytingu og finnst það vera til hins góða. Krakkarnir mæta betur og virðast ekki vera eins þreytt og syfjuð,“ segir Snædís Valsdóttir skólastjóri Vogaskóla

Krakkarnir sjálfir eru á því að þeim líði betur eftir að þeir tóku að mæta seinna í skólann. Segja léttara að vakna og geta einbeitt sér betur. Þá eru þau ekki á því að þau freistist til að fara seinna að sofa en áður.

„Ég fer ekkert eitthvað mikið seinna að sofa,“ segir Hulda Filippía Andradóttir nemandi í 10. bekk í Vogaskóla.


Tengdar fréttir

Unglingar í Reykjavík fá að sofa lengur

Reykjavíkurborg hefur tekið þá ákvörðun að skóladagur unglinga muni byrja í fyrsta lagi klukkan 8:50 á morgnana. Breytingin mun taka gildi í grunnskólum borgarinnar frá og með haustinu 2024.

Býður öllum grunnskólabörnum á fund

Borgarstjóri hefur boðað alla unglinga í grunnskólum Reykjavíkur á fund til að ræða mögulega seinkun á skólabyrjun á unglingastigi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×