Lífið

Brooklyn Nine-Nine-stjarna látin

Atli Ísleifsson skrifar
Andre Braugher fór með hlutverk Captain Raymond Holt í gamanþáttunum Brooklyn Nine-Nine.
Andre Braugher fór með hlutverk Captain Raymond Holt í gamanþáttunum Brooklyn Nine-Nine. Getty

Bandaríski leikarinn Andre Braugher, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt í gamanþáttunum Brooklyn Nine-Nine, er látinn. Hann varð 61 árs gamall.

TMZ greinir frá andlátinu og segir hann hafa andast í gær eftir skömm veikindi.

Braugher fór með hlutverk lögreglustjórans Captain Raymond Holt í gamanþáttunum Brooklyn Nine-Nine og kom hann fram í öllum 153 þáttum þáttaraðarinnar.

Leikarinn Terry Crews minnist Braugher á samfélagsmiðlum. Crews, sem fór með hlutverk Terry Jeffords í þáttunum, segir það sárt að frétta af fráfallinu og segir hann hafa farið of snemma. Hann segist ætíð munu vera þakklátur fyrir að hafa kynnst Braugher sem hafi kennt honum mjög mikið. „Takk fyrir visku þína, ráðleggingar, góðmennsku og vinskapinn,“ skrifar Crews.

Braugher sló fyrst í gegn árið 1990 þegar hann fór með hlutverk hermanns í myndinni Glory þar sem hann lék á móti leikurum á borð við Denzel Washington og Morgan Freeman.  Þremur árum síðar tók hann við hlutverki rannsóknarlögreglumannsins Frank Pembleton í NBC-þáttunum Homicide: Life on the Street. Þá fór hann með hlutverk Owen Thoreau Jr. Í þáttunum Men of a Certain Age, auk þess að birtast í kvikmyndum eins og Frequency, The Mist og City of Angels.

Hann ólst upp í Chicago og stundaði nám í leiklist og leiklistarfræðum í Stanford-háskólanum og Julliard.

Braugher lætur eftir sig eiginkonuna Ami Brabson og þrjú börn. Braugher og Brabson giftust árið 1991.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×