Körfubolti

KR-ingar reka Kanann þrátt fyrir 58 stiga leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Troy Cracknell skoraði 58 af 123 stigum KR í lokaleiknum.
Troy Cracknell skoraði 58 af 123 stigum KR í lokaleiknum. KR karfa

Troy Cracknell hefur leikið sinn síðasta leik fyrir KR í 1. deild karla í körfubolta því Vesturbæjarfélagið hefur sagt upp samningi sínum við leikmanninn.

Cracknell átti stórleik í lokaleik sínum fyrir félagið þegar KR tryggði sér sæti í átta liða úrslitum VÍS bikarkeppninnar.

Cracknell skoraði 58 stig í 123-99 sigri á Þrótti úr Vogum. Hann var einnig með 10 fráköst og hitti úr 10 af 14 þriggja stiga skotum sínum. Segja má að hann hafi að stórum hlut siglt sigrinum í hús en leikurinn var lengi vel jafn. Mikil stemmning myndaðist í íþróttahúsi KR undir lok leiksins þegar hvert þriggja stiga skot hans á fætur öðru rataði ofan í auk þess sem hann tróð með tilþrifum.

„Troy er góður leikmaður og frábær félagi. En við metum það svo að við þurfum öðruvísi týpu af leikmanni fyrir átökin sem framundan eru. Ég vil þakka Troy fyrir hans framlag,“ sagði Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR-liðsins, í frétt á miðlum félagsins.

Cracknell skoraði 14,2 stig að meðaltali í tíu leikjum með liðinu í 1. deildinni og var að auki með 5,5 fráköst og 2,0 stoðsendingar í leik. Hann hitti úr 32 prósent þriggja stiga skota sinna og var bara með tólf þrista samanlagt í þessum tíu leikjum miðað við tíu í þessum eina bikarleik.

KR er í 4. sæti 1. deildar karla þegar liðin fara í jólafrí en þó bara tveimur stigum á eftir toppliði ÍR-inga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×