Skoðun

Hversu margir þurfa að deyja?

Tómas A. Tómasson skrifar

Á þessu ári munu 80 einstaklingar yngri en 50 ára deyja af völdum fíknisjúkdóms. Hér er hvorki talið með fólk sem er yfir fimmtugt né fólk sem deyr úr sjúkdómnum án þess að hafa farið á Vog. Ef við tækjum þá hópa með væri fjöldinn vel yfir hundrað manns. En hvers vegna vilja stjórnvöld ekki taka almennilega utan um málaflokk þar sem algjört neyðarástand ríkir? Hversu margir þurfa að deyja áður en stjórnvöld grípa til aðgerða?

Algengt er að fíknisjúklingar falli frá á meðan þeir bíða eftir að komast í meðferð. Næstum 700 manns eru á biðlistum SÁÁ. Ef ekkert er gert munu fleiri deyja á vegna fíknisjúkdóma næstu árin en vegna umferðarslysa.

Flokkur fólksins hefur nýlega lagt til að veitt verði aukið fjármagn til þeirra stofnana sem berjast gegn fíknisjúkdómum. Við viljum að stjórnvöld ráðist í raunverulegt átak til að sinna 700 fárveikum einstaklingum sem bíða nú á biðlista. Því miður var sú tillaga felld þegar Framsókn, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri Grænir kusu gegn tillögunni, kusu NEI. Í bakherbergjum ákváðu þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarflokkanna að ekkert verði gert til að koma í veg fyrir 100 ótímabær dauðsföll á ári. Ég velti því fyrir mér hvort það séu kannski fordómar gagnvart fíknisjúklingum sem ráði þessari afstöðu ríkisstjórnarinnar. Varla hefði hún brugðist svona við ef 100 bílaleigur væru komnar í greiðslustöðvun, hvað þá ef 100 hótel væru að segja upp starfsmönnum, vegna tekjutaps. Þá hefðu milljarðarnir flætt út úr ríkissjóði. Hversu margir þurfa að deyja áður en eitthvað verður gert?

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×