Íslenski boltinn

Kjartan Henry leggur skóna á hilluna

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kjartan Henry lék lengst af með uppeldisfélaginu KR.
Kjartan Henry lék lengst af með uppeldisfélaginu KR. Vísir/Hulda Margrét

Kjartan Henry Finnbogason hefur lagt fótboltaskóna á hilluna. Í gær var tilkynnt að Kjartan væri nýr aðstoðarþjálfari FH og mun hann ekki leika með liðinu samhliða því.

Kjartan Henry staðfesti þetta við Vísi í dag en þá er einnig greint frá þessu í hlaðvarpsþætti FH. Kjartan Henry lék lungann úr sínum leikmannaferli hér heima með KR, hvar hann er alinn upp.

Hann hélt ungur út til Celtic í Skotlandi árið 2004 og lék með Queen's Park, Åtvidabergs FF, Sandefjord og Falkirk áður en hann kom aftur heim í KR árið 2010. Hann varð Íslandsmeistari með liðinu 2011 og 2013 og vann bikarkeppnina í þrígang, 2010, 2011 og 2014.

Eftir sumarið 2014 fór Kjartan til Horsens í Danmörku og lék þar við góðan orðstír til ársins 2018 þegar hann reyndi fyrir sér með Ferencvaros í Ungverjalandi. Eftir stutt stopp þar lék hann með Vejle, Esbjerg og aftur með Horsens áður en hann kom heim í KR 2021.

Önnur heimkoma hans fór ekki að óskum og var samningi hans rift eftir tímabilið 2022. Þá samdi hann við FH og lék það sem reyndist sitt síðasta tímabil með FH nýliðið sumar. Kjartan skoraði ellefu mörk í 24 leikjum með FH sem hafnaði í fimmta sæti.

Kjartan spilaði 13 landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim þrjú mörk.

Nýr kafli tekur nú við hjá Kjartani Henry sem tekur við af Sigurvini Ólafssyni sem aðstoðarþjálfari Heimis Guðjónssonar hjá Hafnfirðingum.

Kjartan Henry verður til viðtals í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×