Innlent

Fólk geti komið sér í þannig ó­göngur að ekki sé hægt að bjarga því

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Það eru ákveðin svæði nálægt svona gossprungum þar sem við sendum ekkert fólk inn á, af öryggisástæðum,“ segir Víðir sem tekur þó fram að ef fólk lendi í ógögnum skuli það hringja í neyðarlínuna.
„Það eru ákveðin svæði nálægt svona gossprungum þar sem við sendum ekkert fólk inn á, af öryggisástæðum,“ segir Víðir sem tekur þó fram að ef fólk lendi í ógögnum skuli það hringja í neyðarlínuna. Vísir/Vilhelm/Ívar Fannar

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, biðlar til fólks að fylgja fyrirmælum stjórnvalda varðandi eldgosið. Fólk sem fari að gosinu í óleyfi geti komið sér í þá stöðu að ekki verði hægt að bjarga því.

„Það er bara þannig að á meðan við erum að átta okkur á umfangi svona atburða þá vitum við ekki nákvæmlega hvernig hætturnar liggja. Þannig þetta er bara hefðbundið að gera þetta,“ segir Víðir um svæði í kringum gossprunguna sem er lokað almenningu. Hann bendir á að gosið sé stórt og hraunið sé þunnfljótandi og renni því hraðar enn í fyrri gosum.

Jafnframt geti mikið gas verið á vettvangi, sem geti til að mynda rutt súrefni frá í ákveðnum aðstæðum án þess að fólk verði vart við.

„Þetta er hættulegt svæði. Á meðan við erum að skoða þetta biðjum við fólk að vinna þetta með okkur og vera ekki að fara að þessu. Þetta sést ágætlega úr fjarlægð,“ segir Víðir sem bætir við að unnið verði að því að setja upp góðan útsýnisstað.

Í fyrri gosum hafa ítrekað komið upp dæmi þar sem fólk fer þvert á fyrirmæli stórnvalda. Aðspurður út í hvað fólk eigi að gera lendi það í ógöngum segir Víðir: „Við biðjum alla sem lenda í útgögnum að hringja í 112 og láta vita af sér og við getum þá metið hvað við getum gert. En það eru ákveðin svæði nálægt svona gossprungum þar sem við sendum ekkert fólk inn á, af öryggisástæðum. Einhverjir geta komið sér í þau vandræði að við eigum enga möguleika á að hjálpa þeim.“

Víðir segir að það verði metið í dag hvort Grindvíkingum verði hleypt aftur í bæinn. Hann segir að beðið sé eftir niðurstöðum af fundi vísindamanna til að taka slíka ákvörðun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×