Íslenski boltinn

„Reiði og hatur eru oft góð orka“

Sindri Sverrisson skrifar
Víkingar voru vel gíraðir allt síðasta tímabil eftir að hafa horft upp á Blika fagna Íslandsmeistaratitlinum í fyrra.
Víkingar voru vel gíraðir allt síðasta tímabil eftir að hafa horft upp á Blika fagna Íslandsmeistaratitlinum í fyrra. vísir/Hulda Margrét

Arnar Gunnlaugsson leyfði leikmönnum sínum ekki að fara heldur lét þá horfa á Blika taka á móti og fagna Íslandsmeistaraskildinum, á Kópavogsvelli fyrir rúmu ári síðan. Þannig vildi hann skapa hvatningu fyrir Víkinga sem í ár urðu svo Íslandsmeistarar með yfirburðum og einnig bikarmeistarar.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í þætti sem frumsýndur verður í kvöld, um Íslandsmeistara karla í fótbolta árið 2023. Þátturinn er einn af fjórum sem sýndir eru á Stöð 2 Sport yfir jólin um Íslandmeistaralið karla og kvenna í fótbolta og körfubolta.

Brot úr þætti kvöldsins má sjá hér að neðan en þar lýsa Víkingar því hvernig var að horfa á Blika taka við skildinum í fyrra, og hvernig það hjálpaði þeim:

„Mér fannst það gríðarlega mikilvægt að þeir fengju að sjá það. Það kemur eitthvað svona sjónrænt í hausinn á þér sem er góð innspýting inn í fríið. Reiði og hatur eru oft góð orka,“ sagði þjálfarinn Arnar, sem áfram verður í brúnni í Víkinni þrátt fyrir að hafa um tíma virst á leiðinni til Norrköping í Svíþjóð.

„Það að fara í Kópavoginn og þurfa að horfa á þá lyfta bikarnum var eitt það versta sem maður hefur þurft að þola,“ sagði markahrókurinn Nikolaj Hansen.

„Ég held að allir hafi hugsað; „Við ætlum að gera þetta á næsta ári“. Það var talað um það, og svo gerðist það,“ sagði Birnir Snær Ingason, besti maður Íslandsmótsins í ár.

„Arnar lét okkur horfa á þetta aftur þegar við byrjuðum næsta tímabil, til að kveikja eld innra með okkur,“ sagði Sölvi Geir Ottesen aðstoðarþjálfari, en brotið úr þættinum má sjá hér að neðan.

Þátturinn um Íslandsmeistara Víkings verður frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld á Stöð 2 Sport.

Klippa: Íslandsmeistarar 2023: Víkingur í Bestu deild karla



Fleiri fréttir

Sjá meira


×