Fótbolti

Dramatík þegar Girona jafnaði Real á toppnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Girona vann frábæran sigur á Atletico Madrid í kvöld.
Girona vann frábæran sigur á Atletico Madrid í kvöld. Vísir/Getty

Girona er aftur jafnt Real Madrid á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar eftir 4-3 sigur á Atletico Madrid í kvöld. Sigurmarkið kom í uppbótartíma.

Það vantaði ekki fjörið í leik Girona og Atletico Madrid í kvöld. Fyrr í kvöld komst Real Madrid þremur stigum fram úr Girona á toppi deildarinnar eftir sigur á Mallorca en spútnikliðið fékk tækifæri til að jafna stórveldið að stigum með sigri á Atletico Madrid sem var í 3. -4. sæti fyrir leikinn.

Eins og áður segir vantaði ekki fjörið. Valery kom heimamönnum í Girona í 1-0 strax á 2. mínútu leiksins en Alvaro Morata var búinn að jafna í 1-1 tólf mínútum síðar.

Savio kom Girona á ný í forystu á 26. mínútu og Daley Blind kom Girona í 3-1 á 39. mínútu.

Alvaro Morata var þó ekki hættur. Hann minnkaði muninn í 3-2 fyrir hlé og kom boltanum aftur í netið skömmu síðar en það mark var dæmt af vegna rangstöðu. Staðan í hálfleik 3-2.

Þrenna Morata kom hins vegar í síðari hálfleiknum. Hann jafnaði metin í 3-3 á 54. mínútu og virtist ætla að tryggja Atletcio eitt stig eða fleiri einn síns liðs.

Svo fór hins vegar ekki. Þegar ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Ivan Martin sigurmark Girona og tryggði liðinu 4-3 sigur. Liðið er því jafnt Real Madrid á toppi spænsku deildarinnar en bæði lið eru með 48 stig eftir nítján leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×