Körfubolti

Giannis dol­fallinn yfir ný­liðanum: „Hef aldrei séð neitt þessu líkt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Victor Wembanyama ver skot frá Giannis Antetokounmpo í leik San Antonio Spurs og Milwaukee Bucks.
Victor Wembanyama ver skot frá Giannis Antetokounmpo í leik San Antonio Spurs og Milwaukee Bucks. getty/Ronald Cortes

Victor Wembanyama hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína á sínu fyrsta tímabili í NBA-deildinni og mótherjar San Antonio Spurs halda vart vatni yfir honum.

Wembanyama og félagar í San Antonio töpuðu fyrir Milwaukee Bucks í nótt, 125-121. Frakkinn ungi mætti þá Giannis Antetokounmpo, einum besta leikmanni NBA, í fyrsta sinn og lét hann heldur betur svitna.

Wembanyama skoraði 27 stig, tók níu fráköst og varði fimm skot í leiknum. En Antetokounmpo var enn betri, með 44 stig, fjórtán fráköst og sjö stoðsendingar. Grikkinn hrósaði samt Frakkanum í hástert eftir leikinn.

„Hann er einstakur. Hann verður ótrúlega góður leikmaður. Hann spilar leikinn á réttan hátt og til að vinna. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt,“ sagði Antetokounmpo í viðtali í leikslok.

Hér fyrir neðan má sjá þegar Wembanyama varði skot frá Antetokounmpo með tilþrifum og svo frábæra troðslu hans í leiknum í nótt.

Wembanyama, sem varð tvítugur í gær, er með 18,9 stig, 10,2 fráköst og 3,1 varin skot að meðaltali í leik í vetur. Illa hefur gengið hjá San Antonio sem hefur aðeins unnið fimm af 34 leikjum sínum á tímabilinu og er á botni Vesturdeildarinnar.

Antetokounmpo og félagar í Milwaukee eru í 2. sæti Austurdeildarinnar með 25 sigra og tíu töp.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×