Erlent

Lentu vélinni eftir að gat kom á far­þega­rými

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Gatið var einkar stórt að þvermáli.
Gatið var einkar stórt að þvermáli.

Farþegaflugvél á leið frá Portland í Oregon ríki í Bandaríkjunum til Kaliforníu varð að lenda 35 mínútum eftir brottför eftir að hluti vélarinnar féll af vélinni með þeim afleiðingum að stórt gat myndaðist í farþegarýminu.

Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að 177 manns hafi verið um borð í vélinni sem er í eigu Alaska Airlines. Engan sakaði. Um var að ræða farþegaflugvél af gerðinni Boeing 737 Max 9.

Haft er eftir bandarískum flugmálayfirvöldum að þrýstingur hafi fallið í farþegarýminu þegar atvikið átti sér stað, með þeim afleiðingum að farþegum var veitt súrefni í gegnum öndunargrímur vélarinnar.

Vélin var í sextán þúsund feta hæð og sat enginn farþegi næst þeim hluta vélarinnar sem datt af. Um er að ræða hluta vélarinnar sem er fyrir aftan hreyfla hennar og vængi.

Henni var snúið aftur við til Portland í kjölfarið og var lent þar rúmum hálftíma síðar. Í myndböndum sem farþegar tóku úr vélinni má sjá að vel sést í næturhimininn frá vélinni þó gustað hafi vel um farþega.

Samkvæmt umfjöllun BBC hyggjast flugmálayfirvöld og framleiðandinn Boeing rannsaka atvikið í þaula. Þess er getið að Max vélar framleiðandans séu undir mesta eftirliti sem um getur í heiminum, eftir að vélar af þeirri gerð voru kyrrsettar í eitt og hálft ár í mars 2019 eftir tvö mannskæð flugslys.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×