Fótbolti

Franz Beckenbauer látinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Franz Beckenbauer lyftir heimsmeistarastyttunni eftir að Vestur-Þjóðverjar unnu Hollendinga í úrslitaleik HM á heimavelli 1974.
Franz Beckenbauer lyftir heimsmeistarastyttunni eftir að Vestur-Þjóðverjar unnu Hollendinga í úrslitaleik HM á heimavelli 1974. getty/Werner Schulze

Franz Beckenbauer, einn besti fótboltamaður allra tíma, er látinn. Hann var 78 ára.

Beckenbauer lést í gær en hann hafði glímt við veikindi í nokkurn tíma.

Keisarinn, eins og Beckenbauer var oft kallaður, er einn þriggja sem hafa orðið heimsmeistarar sem leikmaður og þjálfari. Hann er jafnframt einn níu sem hafa unnið HM, Meistaradeild Evrópu og Gullboltann.

Beckenbauer lék 103 landsleiki fyrir Vestur-Þýskaland á árunum 1965-77 og skoraði þrettán mörk. Hann vann gull (1974), silfur (1966) og brons (1970) á HM og gull (1972) og silfur (1972) á EM.

Beckenbauer lék lengst af ferilsins með Bayern München. Hann varð fjórum sinnum þýskur meistari og fjórum sinnum bikarmeistari með liðinu, vann Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð (1974-76) og Evrópukeppni bikarhafa einu sinni. Beckenbauer varð einnig þýskur meistari með Hamburg 1982. Beckenbauer fékk Gullboltann 1972 og 1976.

Eftir að ferlinum lauk sneri Beckenbauer sér að þjálfun. Hann stýrði vestur-þýska landsliðinu á árunum 1984-90. Undir hans stjórn urðu Vestur-Þjóðverjar heimsmeistarar 1990 og lentu í 2. sæti á HM 1986.

Hann þjálfaði seinna Marseille og Bayern og gerði Bæjara að þýskum meisturum 1994 og Evrópumeisturum félagsliða tveimur árum seinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×