Lífið

Fimm­tán hundruð króna tölvu­leikur úr Góða hirðinum reyndist milljónavirði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Elísabet María Ragnarsdóttir, starfsmaður Góða hirðisins.
Elísabet María Ragnarsdóttir, starfsmaður Góða hirðisins.

„Við erum í fjársjóðsleit allan daginn,“ segir starfsmaður Góða hirðisins sem rætt var við í Íslandi í dag í gær. Fjölmörg dæmi eru um að viðskiptavinir hafi dottið í lukkupottinn við grúsk í versluninni.

Elísabet María Ragnarsdóttir starfsmaður Góða hirðisins rifjar upp þegar vinur hennar fór í Góða hirðinn fyrir nokkrum árum og fann þar tölvuleik.

„Þetta var fyrsti leikurinn af Diablo-seríunni. Þetta var fyrsta útgáfa, árituð af þeim sem skapaði leikinn. Hann kaupir hann á fimmtánhundruð kall og fer svo og tékkar á honum og þá er þetta rosalega verðmætur leikur. Hann er held ég búinn að fá eitt tilboð upp á tvær milljónir og ætlar til útlanda að láta verðmeta hann að fullu. Ég efast samt um að hann selji leikinn,“ segir Elísabet. 

Hún og Lára Rut Þorsteinsdóttir samstarfskona hennar í Góða hirðinum rifja upp fleiri óvænta dýrgripi sem fundist hafa í Góða hirðinum í broti úr Ísland í dag-þætti gærkvöldsins hér fyrir neðan. Á meðal þess sem þær nefna er fálkaorðan, sem var snarlega skilað, og fjölskyldualbúm sem rataði óvænt í réttar hendur á ný.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×