Innlent

Hafn­firðingar bíði ró­legir eftir hættumati

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í Hafnarfirði. Vísir/Arnar

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, segist bíða róleg eftir hættumati Veðurstofu Íslands og almannavarna vegna mögulegrar goshættu í byggð. Það sé væntanlegt í vor og þá verði hægt að skoða vinnu við mögulega varnargarða.

Tilefnið eru ummæli Ármanns Höskuldssonar, prófessors í eldfjallafræði, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Hann segir það hafa verið til skoðunar frá 2021 hvaða byggð sé í hættu af völdum eldgosa á Reykjanesskaganum. Þar sé Hafnarfjörður erfiðastur.

Rósa segir í samtali við Vísi að unnið sé að því að meta hættur sem byggð á hrauni stafi af mögulegum eldgosum. Þar séu fleiri sveitarfélög en Hafnarfjörður undir.

„Það er verið að vinna hættumat fyrir allt þetta svæði og það á að vera tilbúið í vor. Við bíðum bara róleg eftir því og þeirri skýrslu,“ segir Rósa.

„Þá kemur í ljós hvort almannavarnir meti sem svo hvort að hanna þurfi varnargarða, við þessi bæjarfélög sem verið eru að nefna á höfuðborgarsvæðinu. Það eru fleiri en Hafnarfjörður, eins og á Suðurnesjum og Reykjanesi. Það er verið að skoða þetta og ég mun bara vera róleg og bíða eftir því.“

Rétt að hinkra

Í júlí síðastliðnum gagnrýndi Rósa Þorvald Þórðarson eldfjallafræðing fyrir að mæla með því að Hafnfirðingar myndu ekki byggja lengra til suðurs. Aðspurð hvort sér hafi snúist hugur nú segist Rósa vilja bíða eftir hættumatinu.

„Á meðan það er verið að gera þetta hættumat skulum við bara öll vera róleg og sjá hvað í því mun felast. Það segir sig sjálft að það er bara stórt svæði á landinu öllu sem hefur byggst á hrauni og eldfjöllum, þannig það er stórt svæði sem þarf að skoða. Við búum í þessu landi og þetta er algjörlega óútreiknanlegt. Mér finnst við bara eiga að hinkra eftir því.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×