Lífið

Þarf að bæta við sig ferða­töskum til að flytja öll fötin heim

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Friðrik Ómar Hjörleifsson hefur fest kaup á einbýlishúsi í Borgarnesi. Áður en hann flytur þangað inn nýtur hann góða lífsins á Flórída.
Friðrik Ómar Hjörleifsson hefur fest kaup á einbýlishúsi í Borgarnesi. Áður en hann flytur þangað inn nýtur hann góða lífsins á Flórída. Vísir/Vilhelm

Söngfuglar sötra kokteila á Flórída, aðrir njóta sólarinnar á Tenerife á meðan náttúruvársérfræðingur gleymir sér við mínígolf. Já, það er komið víða við í Frægir á ferð þessa vikuna.

Friðrik Ómar söngvari stakk af frá Íslandi fyrir áramótin og nýtur lífsins í útlandinu áður en við taka flutningar í nýja húsið í Borgarnesi. Eftir heimsókn til Færeyja um áramótin þar sem Friðrik og Jógvan sungu meðal annars saman á tónleikum stakk Friðrik af í sólina til Miami í Flórída. Þar er María Björk Sverrisdóttir hjá Söngvaborg gestgjafinn og óhætt að segja að kokteilarnir hafi verið blandaðir miðað við frásögn Friðriks á Instagram.

Það stefnir í ansi mikla yfirvigt hjá Friðriki sem var að kaupa tvær ferðatöskur í viðbót eftir ansi mikil fatakaup vestanhafs. Hann fagnar því aftur á móti að vera í fatastærð extra small í Ameríkunni.

Fleiri söngfuglar kunna að meta sólina því Jóhanna Guðrún Jónsdóttir Eurovision-drottning hefur notið lífsins á Tenerife í janúar ásamt fjölskyldu sinni. Þar hafa Egill Einarsson einkaþjálfari og Ásgeir Kolbeinsson athafnamaður líka gert vel við sig í mat og drykk ásamt konunum sínum Gurrý Jóns og Heru Gísla. Hera hefur verið í vandræðum með hárið sitt í hitanum og rakanum á Tene þó það sjáist ekki á þessari mynd.

En það er líka hægt að njóta góðs matar á Íslandi. Það gerðu þrenn vinahjón á Oto restaurant á Hverfisgötu á dögunum. Edda Hermannsdóttir hjá Íslandsbanka og Ríkharður Daðason fjárfestir og fyrrverandi boltasparkari, reyndar ekki síður skallari í tilfelli Rikka, snæddu með Friðriku Hjördísi Geirsdóttur, Rikku kokki, og Kára Hallgrímssyni bankamanni. Helgi Björgvinsson yfirmaður alþjóðasamskipta hjá Icelandair og Marta Jónsdóttir sendiráðunautur fullkomnuðu þrennuna við borðið.

Nikolaj Coster Waldau, einn frægasti leikari Dana, hefur verið á Íslandi og þá væntanlega í tengslum við víkingaseríu sem Baltasar Kormákur vinnur að þessa dagana. Sá danski skóflaði í sig mat á Kastrup, sem býður einmitt upp á danska rétti, og var víst yfir sig hrifinn og lét kokkinn vita af því.

Sumir láta kaffið duga og það gerðu Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi og Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi borgarfulltrúi og ritstjóri Viljans. Þau sátu saman á Kaffi Vest á mánudaginn og virtust vera með eitthvað á prjónunum.

Álagið hefur verið mikið á náttúruvársérfræðingum Veðurstofu Íslands undanfarnar vikur, mánuði og ár. Kristín Jónsdóttir er ein þeirra skærasta stjarna og þótti sýna glæsilega takta með golfkylfuna í Mínígarðinum í gær. Þangað voru fjölmargir mættir til að fylgjast með strákunum okkar glíma við Þýskaland á EM í handbolta.

Fregnir bárust af því í gær að viðskiptavinur í Góða hirðinum hefði fundið tölvuleik fyrir einhverju síðan sem talið er að geti verið einhverra milljóna króna virði. Hvort sá fundur hafi hvatt Margréti Friðriksdóttur á Fréttinni til að skella sér í heimsókn er ómögulegt að segja. Hún sást alla vega brosandi út að eyrum með gufuvél og steikarpott. Um að gera að endurnýta en Margrét hefur haft umhverfismál nokkuð til umfjöllunar á vef sínum.

Píratar kunna að halda partý þó dæmi sanni að þau geti endað á ómögulegum nótum og jafnvel með handtöku á klósetti. Allt gekk þó vel fyrir sig í afmæli Kristínar Ólafsdóttur framkvæmdastjóra sem haldið var á Irishman. Píratar virðast sjúkir í karókí og var Björn Leví Gunnarsson þingmaður á meðal þeirra sem tóku lagið. Þingmennirnir Arndís Anna Kristínardóttir og Halldóra Mogensen voru í stuði ásamt mökum sínum.

Og Dagur B. Eggertsson kann að fagna endalokum sem borgarstjóri. Haldið var hóf í Höfða og fram undan er risaveisla í Borgarleikhúsinu. Þá borgar Dagur þó úr eigin vasa og segist vera búinn að safna fyrir henni lengi. Tímamótum ber að fagna og sást Dagur rifja upp árin sín í Háskóla Íslands með bjórsötri í Stúdentakjallaranum, sem er reyndar allt annar og betri en sá við Hringbrautina þegar Dagur nam læknisfræði við skólann.

Leikhúsin eru á fullu og sást Jakob Frímann Magnússon þingmaður og poppari ganga rösklega í Borgarleikhúsið í gegnum Kringluna til að vera viðstaddur frumsýningu Lunu. Ilmur Kristjánsdóttir leikkona var á meðal fjölmargra leikara sem skelltu sér á frummarann.

Þá eru ótýndir allir þeir sem hafa fylgt eftir karlalandsliðinu í handbolta í München og nú Köln. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar og Kristján Arason handboltakempa eru þeirra á meðal. Ráðherrarnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Bjarni Benediktsson fylgdust með í München ásamt fótboltastjörnunni Glódísi Perlu Viggósdóttir og Kristófer Eggertssyni, eiginmannsefni hennar.

Íslendingar fjölmenntu á leiki Íslands í München.Vísir/Vilhelm

Sprelligosarnir Auddi Blö og Steindi Jr. stukku út á leikinn gegn Ungverjum en reyndust ekki þau lukkutröll sem landsliðið þurfti á að halda. Ungverjar gerðu gúllassúpu úr íslensku strákunum sem sáu ekki til sólar. Á Keflavíkurflugvelli beið svo bíll þeirra félaga á kafi í snjó. 

Skíðatímabilið er hafið fyrir alvöru og Sigurlaug Sverrisdóttir, Laulau, lætur ekki segja sér það tvisvar. Hótelstjóri Ion-hótelsins er mætt í alpana ásamt Hrefnu Bachmann gleðigjafa og nú skal skíðað. Inga Lind Karlsdóttir fjölmiðlakona og ræðismaður Spánar á Íslandi hefur líka verið á skíðum en skellti sér svo til Kanaríeyja og fundaði með viðskiptaráði eyjanna.

Rúrik Gíslason fyrirsæta og áhrifavaldur er kominn í alpana þar sem fram undan virðast vera auglýsingatökur fyrir skíðabúnað. Mögulega gaf Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður honum einhver ráð fyrir brekkurnar eftir kvöldstund þeirra á OX í vikunni. Að lokinni máltíð var smellt í epíska myndatöku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×