Fótbolti

Ætlaði ekki að yfir­gefa kvenna­liðið en snýr sér nú að karlaliðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pálmi Rafn tekur við sem aðstoðarþjálfari karlaliðs KR. Hann var aðalþjálfari kvennaliðs félagsins.
Pálmi Rafn tekur við sem aðstoðarþjálfari karlaliðs KR. Hann var aðalþjálfari kvennaliðs félagsins. vísir/sigurjón

Pálmi Rafn Pálmason er hættur sem þjálfari kvennaliðs KR í knattspyrnu. Hann snýr sér nú að karlaliðinu og hefur verið ráðinn sem aðstoðarþjálfari liðsins.

Pálmi, sem er uppalinn Húsvíkingur, lék með KR frá 2015 til 2022 eftir sjö ára atvinnumannaferil. Hann tók við sem bráðabirgðaþjálfari kvennaliðs KR í júlí á síðasta ári og fékk í kjölfarið þriggja ára samning við liðið.

Kvennalið KR mun leika í þriðju efstu deild á næsta tímabili og hafði Pálmi því verk að vinna með liðið. Í viðtali við Vísi stuttu eftir ráðninguna síðasta haust sagðist hann ætla að koma liðinu aftur í fremstu röð og að hann ætti virkilega erfitt með að skilja við liðið í þeirri stöðu sem það er í.

„Ég á rosalega erfitt með að skilja við þetta í þessari stöðu. Mér fannst ég ekki geta gert neitt annað en halda áfram með þetta og reynt að koma okkur á staðinn sem við eigum að vera á,“ sagði Pálmi Rafn í viðtali við Stefán Árna Pálsson á Vísi í september.

Nú hafa KR-ingar hins vegar sent frá sér tilkynningu þess efnis að Pálmi sé vissulega búinn að yfirgefa kvennaliðið. Á heimasíðu félagsins kemur fram að hann muni taka við stöðu aðstoðarþjálfara karlaliðsins og halda áfram sem yfirþjálfari yngri flokka.

Þá kemur einnig fram að nýr þjálfari kvennaliðsins verði kynntur til leiks á morgun, laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×