Körfubolti

Fer ekki á ÓL vegna hegðunar sinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Draymond Green á tvær gullmedalíur frá Ólympíuleikum í safni sínu.
Draymond Green á tvær gullmedalíur frá Ólympíuleikum í safni sínu. getty/Tim Clayton

Draymond Green, leikmaður Golden State Warriors, spilar ekki með bandaríska körfuboltalandsliðinu á Ólympíuleikunum í París í sumar vegna hegðunar sinnar á tímabilinu.

Green hefur tvívegis verið dæmdur í leikbann í vetur vegna óláta inni á vellinum. 

Í nóvember var hann úrskurðaður í fimm leikja bann fyrir að taka Rudy Gobert, leikmann Minnesota Timberwolves, hálstaki. 

Í síðasta mánuði var hann dæmdur í ótímabundið bann fyrir að kýla Jusuf Nurkic, leikmann Phoenix Suns. Green missti af tólf leikjum vegna seinna bannsins en er nú snúinn aftur á völlinn.

Athygli vakti að Green var ekki á lista yfir þá leikmenn sem koma til greina í Ólympíulið Bandaríkjanna í sumar, sérstaklega vegna þess að þjálfari bandaríska liðsins er Steve Kerr, þjálfari Greens hjá Golden State. 

Grant Hill, framkvæmdastjóri bandaríska körfuboltasambandsins, staðfesti að Green myndi ekki spila á Ólympíuleikunum vegna bannanna sem hann hefur verið dæmdur í að undanförnu.

„Í ljósi þess sem hefur gerst í ár tókum við ákvörðun að hafa Green ekki á listanum á þessum tíma,“ sagði Hill.

Green varð Ólympíumeistari með Bandaríkjunum í Ríó 2016 og Tókýó 2021. Bandaríkjamenn ætla sér að vinna fimmta Ólympíugullið í röð í París í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×