Innlent

Leita barna sem köstuðu klaka af brú á Miklu­braut

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Framrúða bílsins brotnaði eftir klakakastið.
Framrúða bílsins brotnaði eftir klakakastið.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar þriggja stráka á barnsaldri, mögulega á aldrinum níu til ellefu ára, sem grunaðir eru um að hafa kastað stórum klaka af göngubrú yfir Miklubraut í Reykjavík á sunnudag. Klakinn hafnaði á framrúðu bíls.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. Þar segir að bílnum hafi verið ekið Miklubraut til austurs á móts við Rauðagerði um klukkan 17:20 síðastliðinn sunnudag.

Varla þurfi að taka fram að hér sé um stórhættulegt athæfi að ræða, enda geti ökumenn hæglega misst stjórn á bílnum við slíkt með ófyrirséðum afleiðingum. Ökumaður bílsins segir þrjá stráka hafa verið á brúnni þegar þetta gerðist.

Framrúða bílsins var ónýt eftir atvikið. Þurfti að skipta henni út fyrir nýja með tilheyrandi kostnaði fyrir ökumanninn, sem lögregla segir að hafi verið illa brugðið eftir uppákomuna.

Lögreglan biður þau sem kunna að búa yfir upplýsingum um málið að hafa samband í síma 444-1000. Einnig má koma upplýsingum á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.petur@lrh.is.

Segist lögregla meðal annars eiga við upptökur úr myndavélum bíla sem ekið var þarna um á sama tíma. Þá biður lögregla foreldra og forráðamenn um að brýna fyrir börnum sínum þá miklu hættu sem skapast af slíku háttalagi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×