Innlent

Rændur af þjófum í Lands­bankanum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá Landsbankanum í Borgartúni.
Frá Landsbankanum í Borgartúni. Vísir/Vilhelm

Í hið minnsta einn viðskiptavinur Landsbankans varð fyrir barðinu á þjófum við hraðbanka í vikunni sem leið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Þar segir að talin sé full ástæða til að ætla að þjófarnir muni reyna að endurtaka leikinn. Það verði annað hvort við hraðbanka Landsbankans eða annars staðar.

Í því tilviki sem vitað sé um hafi virst sem fjórir einstaklingar, þrír karlar og ein kona hafi unnið saman að þjófnaðinum. Einn úr hópnum fylgdist með þegar viðskiptavinur Landsbankans setti kort sitt í hraðbanka í útibúi bankans í Borgartúni.

Stela kortinu og vita PIN númerið

Þegar viðskiptavinurinn hafði slegið inn PIN númerið sitt lét svikarinn líta út fyrir að viðskiptavinurinn hefði misst miða á gólfið. Á meðan hann beygði sig niður til að taka miðann upp kom annar úr þjófagenginu upp að hraðbankanum og tók kortið út.

Á meðan hélt félagi hans áfram að draga athygli viðskiptavinarins frá því sem var að gerast. Þjófarnir fóru síðan þegar í stað í nálægan hraðbanka og tóku út peninga af reikningi viðskiptavinarins, enda bæði með kort hans og PIN númerið.

Fram kemur í tilkynningu bankans að málið hafi verið kært til lögreglu. Það sé til rannsóknar. Aðferðir sem þessar séu vel þekktar erlendis en ekki algengar hér á landi.

Bankinn ítrekar mikilvægi þess að fólk gæti að því að enginn geti séð PIN númerið þeirra þegar það er slegið inn. Mikilvægt sé að hafa varnn á gagnvart hvers kyns truflunum við úttekt penings.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×