Innlent

Grófu dauðar merarnar í snar­hasti og leyni eftir skipun Ísteka

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það dylst engum ást Sæunnar Þóru á hestum sínum. Facebook-síða hennar er yfirfull af myndum og myndböndum af hestunum.
Það dylst engum ást Sæunnar Þóru á hestum sínum. Facebook-síða hennar er yfirfull af myndum og myndböndum af hestunum. Sæunn Þóra

Hrossabóndi í Landeyjum segir Ísteka hafa beðið hana um að þagga niður þegar fjórar merar hennar drápust í tengslum við blóðtöku á bænum hennar. Hún þurfti að berjast fyrir að krufningsskýrsla yrði gerð og hefur ekki fengið bætur frá fyrirtækinu.

Þetta var meðal þess sem kom fram í Kveik í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Þar var fjallað um blóðmerahald á Íslandi sem er blóði drifinn milljónabransi eins og slegið er upp á vef RÚV.

Ósátt við Ísteka og hætt

Sæunn Þóra Þórarinsdóttir er bóndi á Lágafelli í Landeyjum. Hún missti fjórar merar haustið 2022 og rekur það til dýralækna sem hafi ekki ráðið við verkefnið. Sæunn hafði verið með áttatíu merar í blóðtöku í tuttugu ár en er hætt og byrjuð að selja merarnar sínar.

Hún ber Ísteka ekki vel söguna. Nefnir sem dæmi að í samningi sem hún hafi átt að undirrita hafi endurtekið komið fram að Ísteka væri varið gagnvart öllum mögulegum hlutum sem gætu komið upp.

„Sorrý ég ætla bara fá að vera ógeðslega hreinskilnin með það að það er alveg sama hvernig bændurnir vinna, þeirra er alltaf óhagurinn. Og þetta dýravelferðarmyndband sem Svisslendingarnir gerðu, það er bara ekkert í þessu myndbandi sem er líkt við það hvernig við stöndum að blóðtökunni hjá okkur,“ segir Sæunn Þóra við Kveik.

Í myndbandinu, sem sjá má brot úr hér að ofan, mátti sjá illa meðferð á hrossum við blóðtöku á bóndabæjum hér á landi. Eitthvað sem Sæunn kannast ekki við hjá sér. Sæunn er mikill hestavinur og lýsir hamingjusömum merum á bænum. Merum sem hún neyðist nú til að selja hverja á fætur annarri.

Sæunn Þóra ber Ísteka ekki vel söguna eða dýralæknum á vegum fyrirtækisins sem önnuðust blóðtöku hjá henni haustið 2022. Fjórar merar Sæunnar Þóru drápust.

Fundu merina dauða morguninn eftir

„Allt í einu þarna sumarið 2022 eru bara ráðnir inn dýralæknar sem ráða ekki við verkefnið. Það var bara algjör vangeta. Það bara spýttist blóð í allar áttir og í eitt skiptið fór meri út úr blóðtökubásnum eftir að hafa verið stungin vitlaust, hóstandi og hnerrandi og við vissum ekkert hvað var að gerast,“ segir Sæunn Þóra í viðtali við Kveik.

Dýralæknar hafi ekki kippt sér upp við þetta og starfsfólk í stjórnstöð Ísteka sagt Sæunni Þóru að treysta dýralæknunum. Svo fundu þau merina dauða morguninn eftir.

Þrjár merar til viðbótar drápust, þar af ein sem háði tíu til tuttugu mínútna dauðastríð fyrir framan þrjá dýralækna á vegum Ísteka í sjálfri blóðtökunni.

Arnþór Guðlaugsson, forstjóri Ísteka, hefur látið hafa eftir sér að fyrirtækið hafi sumarið 2022 neyðst til að ráða erlenda dýralækna því dýralæknar hér á landi hafi hætt að taka verkefnið af sér eftir fjölmiðlaumfjöllun í framhaldi af fyrrnefndu myndbandi.

Kafnaði í eigin blóði

Sæunn Þóra barðist fyrir því að merin sem drapst í sjálfri blóðtökunni yrði krufin. Í krufningsskýrslu Guðmars Aubertssonar dýralæknis segir að mistök hafi orðið í stungu við blóðtöku sem hafi gert gat í gegnum hálshæð og barka merarinnar.

Gatið á barkann var það umfangsmikid að þó svo ad ekki hafi lengur blætt út um húð hryssunnar þá blæddi ennþá inn í barka hennar og blóðið ekki náð að storkna til að stöðva þá blæðingu. Það að blóð var komið inn í öndunarveg hryssunnar skýrir blóð sem sást í og við nef hennar.

Blæðingin hafi svo smám saman fyllt öndunarveg hryssunnar sem drukknaði í blóði sínu. Sæunn segir dýralækninn hafa verið sagt að stinga skýrslunni ofan í skúffu og ekki ræða hana. Viðbrögð Ísteka hafi verið á þá leið að hún ætti að grafa dauðu merarnar sem fyrst svo dýraverndarsamtök kæmust ekki á snoðir um málið. Sem hún og gerði, eins og barinn hundur. Þá hlýddi hún, vissi ekki betur, en í dag hefur hún fengið nóg.

Forstjóri Ísteka gaf ekki kost á viðtali við Kveik vegna umfjöllunarinnar og sagðist í skriflegum svörum við fyrirspurnum ekki tjá sig um málefni einstakra bænda.

Ísland eitt á báti í Evrópu

Blóðtökur úr fylfullum hryssum hafa verið stundaðar á Íslandi um áratuga skeið. Fæstir Íslendingar voru meðvitaðir um iðnaðinn þar til erlend dýravelferðarsambönd birtu myndband frá blóðtöku hér á landi. Iðnaðurinn er ekki stundaður í öðrum löndum Evrópu og þekkist aðeins í einstaka löndum Suður-Ameríku.

Í kjölfarið var ný reglugerð sett á sem skyldaði hverja starfstöð til að skila skýrslu í árslok með upplýsingum um dauðsföll og veikindi dýra í tengslum við blóðtöku. Í ljós kom að dauðsföll tengd blóðtöku árið 2022 voru mun fleiri en miðað við skráningar árin á undan. Hins vegar hefðu dýrin öll verið urðuð áður en dánarorsök var staðfest.

Reglugerðin féll úr gildi 1. nóvember síðastliðinn og er nú í gildi reglugerð Evrópusambandsins um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni. Eftirlitsstofnun EFTA áminnti íslenska ríkið fyrir að hafa verið með sérreglur um blóðmerahald.

MAST þurfi að veita leyfi

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, sagði í viðtali við Vísi í september í fyrra að nýja reglugerðin væri mjög nákvæm og reglurnar strangar.

„Í fyrsta lagi þarf að uppfylla ströng skilyrði um fjölda dýra. Hvað þarf mörg dýr að lágmarki til að gera tilraun? Sá massi af dýrum sem verið hefur hér á Íslandi að taka úr þúsundum hryssna. Það mun aldrei ganga upp þegar þetta fellur undir dýratilraun,“ sagði Sigurborg.

Blóðmerar á Íslandi hafa verið í kringum fimm þúsund undanfarin ár Sigurborg sagði ljóst að fáist leyfi til blóðtöku yfir höfuð þá verði mun færri hryssur nýttar á nýju ári.

„Ef það á að gera þetta næsta ár verður að sækja um starfsleyfi fyrir hvern einasta stað sem hryssur eru haldnar fyrir slíka starfsemi. Síðan þarf Ísteka að sækja um leyfi til dýratilrauna,“ sagði Sigurborg.

Stefna ríkinu og ósáttir við þingmenn

Blóðtaka fer fram seinni part sumars og inn í haustið. Hormónið PMSG er unnið úr blóði fylfullra hryssa sem notað er til að framleiða frjósemislyf fyrir dýr umfram það sem náttúrulegt er, aðallega svín. Fyrirtækið Ísteka kaupir allar afurðirnar af blóðmerabændum hérlendis og veltir tæpum tveimur milljörðum króna á ársgrundvelli.

Ísteka hefur stefnt íslenska ríkinu vegna ákvörðunar matvælaráðherra að fella alla starfsemi félagsins tengda blóðnytjum undir fyrrnefnda reglugerð Evrópusambandsins. Þá hefur hann sakað þingmenn um að drífa áfram fordæmafulla og óvægna umræðu.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur lagt fram frumvarp í fjórða sinn á Alþingi er varðar bann við blóðmerahaldi hér á landi.

Ítarlega umfjöllun Kveiks í gærkvöldi má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Ísteka stefnir íslenska ríkinu

Ísteka hefur höfðað mál gegn íslenska ríkinu vegna ákvörðunar matvælaráðherra um að fella alla starfsemi félagsins tengda blóðnytjum úr fylfullum hryssum undir reglugerð nr. 460/2017 um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni.

„Í orðsins fyllstu merkingu dýraníð“

Þýsk og svissnesk dýraverndarsamtök segja fylfullar hryssur undir miklu álagi og enn sæta ofbeldi þegar tekið er úr þeim blóð. Inga Sæland hefur lagt fram bann við blómerahaldi í fjórða sinn, en segist vonast til þess að ný reglugerð ESB verði til þess að það verði í síðasta sinn. 

Segjast munu sækja bætur vegna breytinga á reglum um blóðmerahald

Bændasamtökin hafa gert og sent matvælaráðuneytinu formlega athugasemd fyrir hönd þeirra félagsmanna sem stunda blóðmerahald við þá ákvörðun stjórnvalda að fella niður reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum og fella starfsemina undir reglugerð um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni.

Skil­yrðum fyrir blóð­mera­haldi breytt

Reglu­gerð sem gilt hefur síðan í fyrra um blóð­mera­hald verður felld úr gildi og verður starf­semin felld undir reglu­gerð um vernd dýra sem notuð eru í vísinda­skyni. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Mat­væla­ráðu­neytinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×