Enski boltinn

Mynd um með­göngu Dag­nýjar: „Þú ert búin í lands­liðinu núna“

Sindri Sverrisson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir á heimaleik West Ham með sinn annan son undir belti, en hann kom í heiminn í síðasta mánuði.
Dagný Brynjarsdóttir á heimaleik West Ham með sinn annan son undir belti, en hann kom í heiminn í síðasta mánuði. Getty/George Tewkesbury

Enska knattspyrnufélagið West Ham hefur framleitt heimildarmynd um meðgöngu íslensku landsliðskonunnar Dagnýjar Brynjarsdóttur, sem í síðasta mánuði eignaðist sinn annan son.

Dagný og eiginmaður hennar, Ómar Páll Sigurbjartsson, eignuðust sinn fyrsta son sumarið 2018. Dagný var þá leikmaður Portland Thorns í Bandaríkjunum og eftir að hafa svo spilað með Selfossi sumarið 2020 hélt hún til Lundúna og gekk í raðir West Ham.

Dagný hefur verið í lykilhlutverki hjá West Ham og var gerð að fyrirliða liðsins en hefur ekkert spilað á þessari leiktíð vegna meðgöngunnar.

Vinnuveitendur hennar hjá West Ham sáu hins vegar tækifæri í þessu og á föstudaginn verður frumsýnd heimildarmynd þar sem hægt verður að fylgjast með Dagnýju á meðgöngunni, og áskorunum hennar sem atvinnuíþróttakona sem stofnað hefur fjölskyldu.

„Ég vildi sýna fólki að ég gæti enn spilað erlendis, í einni af bestu deildunum, og verið mamma. Af hverju ætti ég að hætta?“ segir Dagný meðal annars í stiklu úr myndinni sem sjá má á samfélagsmiðlum West Ham. (Til að sjá Instagram-færslurnar gæti þurft að ýta á refresh-takkann, F5).

„Fólk hefur sagt upp í opið geðið á mér: „Þú ert búin í landsliðinu núna. Þú verður bara í hálfatvinnumennsku á Íslandi. Muntu yfirhöfuð spila áfram?““ segir Dagný í stiklunni en eins og fyrr segir verður myndin frumsýnd á föstudag.

Dagný er næstmarkahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi en hún hefur skorað 38 mörk í 113 A-landsleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×