Fótbolti

KA missti af sæti í undan­úr­slitum þrátt fyrir öruggan sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ásgeir Sigurgeirsson skoraði tvö fyrir KA í dag.
Ásgeir Sigurgeirsson skoraði tvö fyrir KA í dag. Vísir/Hulda Margrét

KA vann öruggan 3-0 sigur er liðið heimsótti Leikni R. í riðli 4 í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag.

KA-menn þurftu á sigri að halda til að eiga möguleika á að vinna riðilinn og næla sér þannig í sæti í undanúrslitum. Liðið þurfti þó á sannkölluðum risasigri að halda til að vinna upp markatölu toppliðs ÍA.

Lengst af benti ekkert til þess að gestirnir í KA myndu vinna stórsigur, en Ásgeir Sigurgeirsson kom liðinu yfir þegar aðeins átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. 

Aðeins tveimur mínútum síðar var staðan orðin 2-0 þegar Bjarki Arnaldarson varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og aðeins mínútu eftir það fékk Andi Hoti, leikmaður Leiknis, að líta beint rautt spjald og heimamenn þurftu því að leika síðustu mínútur leiksins manni færri.

Norðanmenn nýttu sér liðsmuninn þegar Ásgeir Sigurgeirsson skoraði annað mark sitt og þriðja mark KA á 89. mínútu og þar við sat.

Niðurstaðan því 3-0 sigur KA sem endar í öðru sæti riðilsins með tíu stig, jafn mörg og topplið ÍA. Skagamemm enduðu þó með mun betri markatölu og fara í undanúrslit á kostnað KA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×