Innlent

„Reynum allt til að missa þetta ekki í sömu stærð“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Gróðureldar hafa komið upp við gosstöðvarnar.
Gróðureldar hafa komið upp við gosstöðvarnar. Vísir/Vilhelm

Slökkvilið Grindavíkur gerir nú hvað það getur til að koma í veg fyrir að gróðureldar við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga breiði úr sér og verði jafn stórir og þeir urðu í gosinu í júlí á síðasta ári. Hjálpin kemur víða að.

„Við erum svona að kljást við þetta og erum að sækja okkur liðsauka bæði frá brunavörnum Árnessýslu og brunavörnum Suðurnesja,“ segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri slökkviliðs Grindavíkur. 

Auk mannaflans fær liðið lánaðan tankbíl frá Landsbjörgu, sem kemur frá Vík í Mýrdal síðar í dag. Slíkir bílar koma að góðum notum þegar flytja á mikið af vatni sem nota þarf til að sinna slökkvistarfi þar sem aðgengi að vatni er ekki gott. 

Einar Sveinn Jónsson er slökkviliðsstjóri í Grindavík.Vísir/Arnar

Ekki af sömu stærðargráðu og í fyrra

Á síðasta ári þurfti slökkviliðið að kljást við mikla og stóra gróðurelda eftir að eldgos varð við Litla-Hrút í júlí. Einar segir aðgerir slökkviliðsins nú miða að því að missa eldana ekki upp í sömu stærðargráðu og þá.

„Þetta er miklu minna í augnablikinu. Við erum að bregðast fyrr við og reynum allt til að missa þetta ekki í sömu stærð.“

Starfið felist í því að bleyta í gróðrinum og rjúfa samfelldan gróðurvöxt, þannig að erfiðara sé fyrir eldinn að dreifa úr sér. 

Engin rigningarspá

Einar segir aðgengið ekki með besta móti, en þó viðri ágætlega til slökkvistarfs. 

„Það er mjög gott veður. Sól úti og hægur andvari.“

Í veðurkortunum sé spáð því sem almennt myndi kallast gott veður, þó að slökkviliðið kunni að vera því ósammála.

„Auðvitað mætti vera rigningarspá þegar maður er að kljást við gróðurelda. Þetta er gott veður en það mætti vera meiri raki í loftinu,“ segir Einar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×