Íslenski boltinn

Besta-spáin 2024: Breytt í tígul

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Breiðabliki 2. sæti Bestu deildar kvenna í sumar.

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Breiðablik FH. Besta deild kvenna sumar 2023 fótbolti KSÍ. vísir/hulda margrét

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Breiðabliki 2. sæti Bestu deildar kvenna í sumar.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Bestu deild kvenna með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með tveimur leikjum í dag, sunnudaginn 21. apríl.

Íþróttadeild spáir Breiðabliki 2. sæti Bestu deildarinnar í sumar og liðið verði í sama sæti og á síðasta tímabili.

Blikar misstu af Evrópusæti 2022 og lentu svo í hremmingum á síðasta tímabili. Ásmundur Arnarsson var látinn taka pokann sinn í lok ágúst og við tók nokkurra manna teymi. Því tókst að landa 2. sætinu með því að vinna síðustu þrjá leikina. Blikar voru þó annað árið í röð aldrei líklegir til að verða Íslandsmeistarar.

Við svoleiðis ástand er ekki unað í Smáranum. Nik Chamberlain, sem hafði náð flottum árangri með Þrótt var ráðinn þjálfari Breiðabliks og hann er nú mættur með tígulmiðjuna sína í Kópavoginn. Eins og hjá Þrótti verður Edda Garðarsdóttir honum til halds og trausts.

grafík/bjarki

Breiðablik hefur ekki bara fengið nýjan þjálfara heldur einnig nokkra nýja og öfluga leikmenn. Landsliðsframherjinn Ólöf Sigríður Kristinsdóttir fylgdi Nik frá Þrótti, varnarmaðurinn efnilegi Jakobína Hjörvarsdóttir kom frá Þór/KA, Barbára Sól Gísladóttir frá Selfossi, Heiða Ragney Viðarsdóttir frá Stjörnunni og svo finnski bakvörðurinn Anna Nurmi frá Åland United í heimalandinu.

Blikar hafa vissulega misst landsliðskonuna Hafrúnu Rakel Halldórsdóttur til Danmerkur en þeir virðast mun sterkari en á síðasta tímabili. Og tilbúnir að veita Val alvöru samkeppni um titilinn.

grafík/bjarki

Það er þó nokkrum spurningum ósvarað og þær snúa helst að varnarleiknum sem hefur verið Akkilesarhæll Breiðabliks undanfarin ár. Í fyrra skoraði liðið aðeins tveimur mörkum minna en Valur en fékk á sig níu fleiri mörk. Nik hefur prófað fyrirliðann Ástu Eir Árnadóttur í miðri vörninni og áhugavert verður að sjá hvernig hún spjarar sig þar.

Þá er Agla María Albertsdóttir í svo að segja nýrri stöðu á tígulmiðju Niks. Hann ætti þó varla að þurfa að hafa miklar áhyggjur af sókninni enda valin kona í hverju rúmi þar. Auk Öglu Maríu og Ólafar Sigríðar getur Nik valið úr leikmönnum á borð við Katrínu Ásbjörnsdóttur, Birtu Georgsdóttur, Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur og Andreu Rut Bjarnadóttur. Ekki amaleg sóknarvopn sem Blikar hafa innan sinna raða.

Lykilmenn

  • Ásta Eir Árnadóttir, 30 ára varnarmaður
  • Agla María Albertsdóttir, 24 ára sóknarmaður
  • Katrín Ásbjörnsdóttir, 31 árs sóknarmaður

Fylgist með

Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir gæti sprungið út hjá Breiðabliki í sumar. Þessi sautján ára miðjumaður fékk nasaþefinn af Blikaliðinu í fyrra og lék hverja einustu mínútu í Lengjubikarnum. Hrafnhildur fær væntanlega drjúgan spiltíma í sumar. Hún hefur leikið 32 leiki og skorað níu mörk fyrir yngri landslið Íslands.

Í besta/versta falli

Ef Nik nær að finna jafnvægi milli varnar og sóknar og Blikar fækka mörkunum sem þeir fá á sig eru þeir fullfærir um að berjast við Valskonur um titilinn og gætu unnið hann í fyrsta sinn frá 2020. Í versta falli verður Breiðablik í 2. sæti annað árið í röð.






×