Enski boltinn

„Úr­slitin kostuðu Ten Hag starfið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik ten Hag situr í heitu sæti.
Erik ten Hag situr í heitu sæti. getty/Matthew Peters

Jamie Carragher telur að Erik ten Hag verði ekki áfram knattspyrnustjóri Manchester United, þrátt fyrir að hafa komið liðinu í úrslit ensku bikarkeppninnar annað árið í röð.

United vann B-deildarlið Coventry City í vítaspyrnukeppni eftir ótrúlegan leik á Wembley í gær. United komst í 3-0 en Coventry kom til baka, jafnaði í 3-3 og knúði fram framlengingu. Coventry-menn héldu svo að þeir væru komnir í úrslit en mark var dæmt af þeim vegna rangstöðu í uppbótartíma framlengingarinnar. United vann svo vítakeppnina, 4-2.

Carragher segir að þrátt fyrir sigurinn í gær séu hverfandi líkur á því að Ten Hag verði áfram stjóri United.

„Mark Robins [knattspyrnustjóri Coventry] bjargaði einu sinni starfi stjóra United. Ég held að úrslitin í dag hafi kostað stjóra Manchester United starfið,“ sagði Carragher eftir leikinn.

„Ég sé ekki hvernig Erik ten Hag verður áfram. Þetta er frammistaða eftir frammistöðu. Ég get ímyndað mér að aldrei hafi leikmenn skammast sín jafn mikið eftir sigur í stórum leik. Leikmennirnir vita ekki hvort þeir eiga að fagna, þeir sitja bara og horfa á hver annan. Hvað er það við Ten Hag sem lætur þig halda að hann taki skref fram á við með United á næsta tímabili? Ég sé það ekki.“

United mætir Manchester City í bikarúrslitaleiknum 25. maí. Liðin mættust einnig í úrslitaleiknum í fyrra og þá vann City, 2-1.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×