Enski boltinn

Var sagður taka við Liverpool en hefur rætt við West Ham

Sindri Sverrisson skrifar
Ruben Amorim hefur gert góða hluti með Sporting Lissabon.
Ruben Amorim hefur gert góða hluti með Sporting Lissabon. Getty/Diogo Cardoso

Forráðamenn West Ham hafa sett sig í samband við portúgalska knattspyrnustjórann Ruben Amorim sem áður hefur verið sagður í sigti Liverpool.

Amorim hefur stýrt Sporting Lissabon frá árinu 2020 og gerði liðið að portúgölskum meistara í fyrstu tilraun, auk þess sem titillinn blasir við liðinu á nýjan leik nú í vor.

West Ham hefur áhuga á að ráða hann fari svo að David Moyes yfirgefi félagið, en frá þessu greinir The Athletic í dag.

Miðillinn segir að það sé aftur á móti ólíklegt að Liverpool horfi helst til Amorim sem arftaka Jürgens Klopp í sumar, þó að félagið hafi velt því fyrir sér. Sky í Þýskalandi fullyrti fyrr í þessum mánuði að munnlegt samkomulag væri í höfn um að Amorim tæki við Liverpool en það er rangt miðað við frétt The Athletic.

Samkvæmt The Athletic er áhugi West Ham hins vegar mikill og viðræður þegar búnar að eiga sér stað. Samningur Moyes við Hamrana rennur út í sumar en Skotinn sagðist þó í febrúar hafa fengið tilboð um nýjan samning.

West Ham er í 8. sæti ensku úrvaldeildarinnar og mætir Liverpool á laugardaginn í leik liða sem mögulega berjast ekki bara um þrjú stig heldur einnig nýjan stjóra.

Annar möguleiki sem West Ham skoðar, fari svo að hvorki Moyes né Amorim stýri liðinu á næstu leiktíð, er Julen Lopetegui sem síðast stýrði Wolves.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×