Enski boltinn

„Sýna að þetta sé Chelsea FC en ekki Cole Palmer FC“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óvíst er með þátttöku Coles Palmer í leiknum gegn Arsenal í kvöld.
Óvíst er með þátttöku Coles Palmer í leiknum gegn Arsenal í kvöld. getty/Marc Atkins

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að í kvöld geti liðið sýnt að það sé ekki bara háð einum leikmanni.

Chelsea sækir Arsenal heim í eina leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Óvíst er með þátttöku markahæsta manns Chelsea í vetur, Cole Palmer, í leiknum en hann glímir við veikindi.

Ef Palmer verður ekki með vill Pochettino að samherjar hans sýni að þeir séu ekki háðir honum.

„Það verður góð áskorun ef Palmer verður ekki með. Það er góð áskorun fyrir samherja hans,“ sagði Pochettino.

„Ef ég er samherji Cole Palmer og spila í hans stöðu eða annarri svipaðri verð ég staðráðinn í að sýna að þetta sé Chelsea FC en ekki Cole Palmer FC.“

Chelsea keypti Palmer frá Manchester City fyrir tímabilið. Hann hefur slegið í gegn í vetur og er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni ásamt Erling Haaland. Þeir hafa báðir skorað tuttugu mörk. Palmer hefur einnig lagt upp níu mörk.

Chelsea er í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 47 stig eftir 31 leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×