Fótbolti

Annar heims­meistari til LAFC

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Olivier Giroud ætlar að færa sig yfir til Bandaríkjanna eftir tímabilið.
Olivier Giroud ætlar að færa sig yfir til Bandaríkjanna eftir tímabilið. getty/Alessio Morgese

Olivier Giroud, framherji AC Milan, er að öllum líkindum á leið til LAFC í Bandaríkjunum.

Fabrizio Romano greinir frá því að Giroud hafi skrifað undir samning við LAFC og gangi til liðs við félagið eftir tímabilið. Samningur hans við LAFC gildir til ársloka 2025.

Hjá LAFC hittir Giroud fyrir annan leikmann úr heimsmeistaraliði Frakka 2018; markvörðinn Hugo Lloris. Hann kom til LAFC frá Tottenham um áramótin.

Giroud kom til Milan frá Chelsea 2021. Hann varð ítalskur meistari með liðinu 2022. Giroud hefur alls leikið 127 leiki fyrir Milan og skorað 47 mörk. Í vetur hefur hann skorað þrettán mörk í ítölsku úrvalsdeildinni.

Milan tapaði fyrir Inter, 1-2, í borgarslag á mánudagskvöldið. Með sigrinum tryggði Inter sér ítalska meistaratitilinn. Í kjölfarið greindi Romano frá því að Stefano Pioli yrði sagt upp sem knattspyrnustjóra Milan eftir tímabilið.

Giroud er markahæsti leikmaður í sögu franska landsliðsins með 57 mörk í 131 leik. Hann lék sinn fyrsta landsleik 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×