Innlent

Kólnar á öllu landinu eftir óvenjugóðan fyrsta sumar­dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það er enn þá vor þó að haldið sé upp á sumardaginn fyrsta í dag, segir veðurfræðingur.
Það er enn þá vor þó að haldið sé upp á sumardaginn fyrsta í dag, segir veðurfræðingur. Vísir/vilhelm

Barnamenningarhátíð, skátafjör og skrúðgöngur eru á meðal þess sem landsmenn geta dundað sér við í dag, á sumardaginn fyrsta. Besta veðrið er á suðvesturhorninu, þar sem dagurinn er óvenjuveðursæll.

„Eftir hæga breytilega átt síðustu daga er að snúast í norðanátt, þó fremur hæga víðast hvar á landinu. Henni fylgir að það er að þykkna upp fyrir norðan, verður skýjað þar og kólnar. En sunnan heiða verður að mestu léttskýjað og hitinn ætti að ná tveggja stafa tölu ansi víða,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson veðurfræðingur og bætir við að best sé veðurútlitið suðvestantil.

„Þetta er náttúrulega ekki það besta sem hefur gerst en þetta er í betri kantinum, að fá svona sólríkt og hægan vind.“

Hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík á sumardaginn fyrsta er 13,5 stig árið 1998 en á landsvísu er það 19,8 stig á Akureyri 1976. Lægsti hiti á sumardaginn fyrsta mældist á Barkarstöðum í Miðfirði 1988, 18,2 stiga frost. Og talandi um kulda - eftir veðurblíðu síðustu daga fer veður nú kólnandi.

„Þessi hæð sem er búin að vera hér yfir landinu undanfarið hún er að gefa aðeins eftir. Það er heldur kólnandi á öllu landinu á næstunni en helst nú mikil til bjart sunnan jökla,“ segir Eiríkur.

Þannig að eins og svo oft áður á sumardaginn fyrsta er sumarið ekki alveg komið? 

„Nei, það er enn þá vor í nútímaskilningi.“

Fjölbreytt dagskrá er víða um land í tilefni dagsins og hér fylgir langt í frá tæmandi listi; barnamenningarhátíð heldur áfram í Reykjavík og skátahreyfingin stendur fyrir húllumhæi í flestum landshlutum. Í Hafnarfirði er meðal annars blásið til skrúðgöngu og víðavangshlaups og skrúðganga verður sömuleiðis gengin í Garðabæ. Á Akureyri verður ýmislegt í gangi í tenglslum við Barnamenningarhátíð eins og hér í höfuðstaðnum og eyfirski safnadagurinn haldinn hátíðlegur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×