Innlent

Efna­hags­stefnan sé að ýta fólki í verð­tryggð lán

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Ásgeir Brynjar Torfason er ritstjóri Vísbendingar.
Ásgeir Brynjar Torfason er ritstjóri Vísbendingar. Sprengisandur

Ásgeir Brynjar Torfason ritstjóri Vísbendingar og sérfræðingur um efnahagsmál telur óhætt að lækka stýrivexti 

„Þetta er náttúrulega eitt stærsta efnahagsmálið núna. Það sem er kannski búið að breytast frá Covid-tímanum, að þá var þetta svona eins um allan heim. Það sem gerðist eftir Covid síðan er að verðbólgan rauk upp, en núna er hún að fara mismunandi niður,“ sagði Ásgeir í viðtali á Sprengisandi í dag. Hann segir verðbólguna hafa tekið að lækka á Íslandi sem betur fer. Hún sé þó enn um 6 prósent, sem er um tvöfalt meira en í löndunum í kringum okkur. Talsvert hefur verið fjallað um efnahagsmál á Vísbendingu.

Ásgeir segir að nýir kjarasamningar þar sem samið var um hóflegar launahækkanir hafi jákvæð áhrif á verðbólguvæntingar. „En það eru ennþá ýmis merki um þrýsting þó hún hafi lækkað niður í sex. Virknin af aðgerðunum er með svo mikilli tímatöf, þannig að núna er kannski lækkunin að verða vegna stýrivaxtahækkunnar sem gerð var fyrir ári síðan, og þetta er svolítið vandinn,“ segir Ásgeir.

Virkni peningastefnunnar ekki almennileg vegna verðtryggingarinnar

En er þetta nýr veruleiki að þetta taki svona langan tíma, eða hvað?

„Neinei það er alveg þekkt. það sem að hefur verið vandinn hér á landi, miðað við önnur lönd, út af verðtryggingunni, að þá hefur í raun og veru virkni peningastefnunnar ekki verið almennileg. Þegar að vextirnir eru hækkaðir er því svona bara flatt út og frestað til efri áranna að verða blankur,“ segir Ásgeir. Peningastefnan virki bara þegar fólk er með óverðtryggð lán, því háar afborganir af lánunum dragi úr neyslu. Hann segir að eina efnahagsstefnan hér á landi í þessari miklu verðbólgu virðast vera að ýta fólki til baka í verðtryggðu lánin. Peningastefnan virki því ekki sem skyldi.

Ásgeir segir húsnæðisverð hafa hækkað hér á landi vegna skorts á húsnæði. Háir stýrivextir geri það svo að verkum að það verður dýrara að byggja, sem þrýstir húsnæðisverði enn frekar upp. Þetta sé ákveðinn vítahringur.

Ásgeir Brynjar ræddi efnahagsmál á Sprengisandi í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×