Innlent

Ók blind­fullur við Gríms­vötn og hótaði að drepa alla

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Grímsvötn árið 2021. Maðurinn ók þar um ofurölvi.
Grímsvötn árið 2021. Maðurinn ók þar um ofurölvi. Ragnar Axelsson

Maður sem var handtekinn á Grímsfjalli í gær var sauðdrukkinn og ógnandi að sögn fararstjóra á svæðinu. Maðurinn var með hópi fólks í skála á Grímsfjalli þegar hann sýndi af sér ógnandi hegðun við samferðafólk sitt og ók svo burt. Samferðafólk hans leitaði aðstoðar í næsta skála.

Lögreglan á Suðurlandi handtók manninn í gær með aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar og sérsveitarinnar. Maðurinn hafði þá ekið fullur um hættusvæði við Grímsvötn.

Sveinn Sigurður Kjartansson, fararstjóri fyrir Útivist, var með hóp fólks í skála nálægt þeim sem ökumaðurinn var í. Samferðarfólk hans hafi komið til þeirra og leitað eftir aðstoð. „Þau biðja okkur um aðstoð, maðurinn sé ofurölvi og sé að aka niður í Grímsvötn. Hann hlýddi engum tilmælum frá þeim,“ segir Sveinn. Þau hafi beðið hann um að hafa samband við ökumanninn í gegnum talstöð. „En hann hlýddi engum tilmælum frá mér heldur,“ segir Sveinn. Þar sem maðurinn væri stjórnlaus hefðu þau óskað eftir aðstoð lögreglu.

Sveinn segir að maðurinn hafi verið mjög ógnandi, bæði við samferðarfólk sitt og hina líka. „Ég var að biðja hann um að snúa við og keyra í sömu förum til baka, en hann formælti mér bara í bak og fyrir og hótaði að drepa alla, drepa mig og hvern sem myndi trufla hann,“ segir Sveinn.

Þá hafi reyndur maður úr hópi Sveins ekið niður að Grímsvötnum að svipast um eftir ökumanninum. Þá hafi maðurinn komið keyrandi til baka. „Hann kemur upp á Grímsfjall og upp hefst verkefni nokkurra aðila úr mínum hópi að ná lyklinum af honum,“ segir Sveinn. Þá hafi ökumaðurinn ráðist að manninum sem tók lykilinn en þeim hafi tekist í sameiningu að yfirbuga ökumanninn. Þau óku með manninn í skálann í Jökulheimum.

Þá hafi lögreglan sent sérsveitarmenn til að handtaka manninn.

Sveinn segir að ekkert þeirra sem hann var með hafi lent í öðru eins. Hann segir að á fjöllum ferðist flestir í friði og vinsemd við allt og alla. Uppákoman sé mjög óvenjuleg.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×