Sport

Kári tók spaðann fram og vann tíunda titilinn

Sindri Sverrisson skrifar
Gerda Voitechovskaja og Kári Gunnarsson með verðlaunagripi sína eftir Meistaramót Íslands um helgina.
Gerda Voitechovskaja og Kári Gunnarsson með verðlaunagripi sína eftir Meistaramót Íslands um helgina. badminton.is

Kári Gunnarsson úr TBR og Gerda Voitechovskaja úr BH urðu um helgina Íslandsmeistarar í einliðaleik í badminton þegar Meistaramóti Íslands lauk í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði.

Árið 2020 vann Kári sinn níunda Íslandsmeistaratitil en hann lagði svo spaðann á hilluna. Hann sneri hins vegar aftur um helgina og bætti tíunda titlinum við, með því að vinna Róbert Henn í úrslitaleik, 21-13 og 21-19.

Gerda, sem er frá Litháen, varði Íslandsmeistaratitil sinn frá því í fyrra en þá hafði hún í fyrsta sinn keppnisrétt á mótinu eftir að hafa búið á Íslandi í þrjú ár. Í úrslitaleiknum í ár vann Gerda sigur gegn Sigríði Árnadóttur, 21-17 og 21-9.

Gerda Voitechovskaja BH og Drífa Harðardóttir ÍA urðu Íslandsmeistarar í tvíliðaleik eftir sigur gegn Sigríði Árnadóttur og Örnu Karen Jóhannsdóttur úr TBR.badminton.is

Gerda vann tvöfalt í ár því hún fagnaði einnig sigri í tvíliðaleik með Drífu Harðardóttur úr ÍA. Þær unnu fyrrnefnda Sigríði Árnadóttur og Örnu Karen Jóhannsdóttur í æsispennandi úrslitaleik; 15-21, 22-20 og 21-19.

Kári keppti einnig í tvíliðaleik, með yngri bróður sínum Ívari, en þeir féllu út í undanúrslitum gegn þeim Davíð Bjarna Björnssyni og Kristófer Darra Finnssyni sem unnu Íslandsmeistaratitilinn.

Það var létt yfir Davíð Bjarna Björnssyni og Kristófer Darra Finnssyni eftir sigurinn í tvíliðaleik.badminton.is

Davíð og Kristófer unnu Daníel Jóhannesson og Jónas Baldursson í úrslitaleik, 21-16 og 21-12. Davíð fagnaði einnig sigri í tvenndarleik með Örnu Karen Jóhannsdóttur en þau unnu Kristófer og Drífu; 21-18, 21-23, 21-15.

Davíð Bjarni Björnsson og Arna Karen Jóhannsdóttir, bæði úr TBR, urðu Íslandsmeistarar í tvenndarleik.badminton.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×