Erlent

Sánchez hættir við að segja af sér

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sánchez virðist njóta töluverðar hylli og efnt var til fjöldafunda til að mótmæla mögulegri afsögn hans.
Sánchez virðist njóta töluverðar hylli og efnt var til fjöldafunda til að mótmæla mögulegri afsögn hans. AP/Emilio Morenatti

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar og formaður Sósíalistaflokksins, hefur ákveðið að segja ekki af sér. Hann hafði áður sagst vera að íhuga það sökum aðfarar hægriafla að sér og eiginkonu sinni.

Dómstóll í Madríd fyrirskipaði á dögunum rannsókn á hendur Begoñu Gómez, eiginkonu Sánchez, eftir kvörtun af hálfu þrýstihópsins Manos Limpias. Hreinar hendur, á íslensku, hefur barist gegn spillingu í marga áratugi en hefur verið gagnrýndur fyrir tengsl við hægri öfgaöfl.

Sánchez ávarpaði þjóðina í morgun og sagðist ekki myndu segja af sér. Forsætisráðherrann sagðist hafa gengið hreint og beint fram en opinbert líf sætti aðför og nú væri nóg komið.

Kallaði hann eftir því að samfélagið horfði inn á við, sýndi gott fordæmi og veitti heimsbyggðinni innblástur. Aðeins ein leið væri fram á við; að meirihluti samfélagsins héldi áfram, eins og hann hefði gert síðustu daga, með reisn og almenna skynsemi að leiðarljósi.

Samherjar Sánchez fagna ákvörðun forsætisráðherrans en pólitískir andstæðingar hans hafa sakað hann um að vera yfir sig dramatískan og upptekinn af sjálfum sér.

„Við, borgarar landsins, eigum ekki að vera að einblína á nafla Sánchez; Sánchez ætti að vera að einblína á borgara landsins,“ sagði Alberto Núñez Feijóo, leiðtogi Íhaldsflokksins. Spurningin væri ekki hvort það væri þess virði fyrir Sánchez að halda áfram, heldur hvort það borgaði sig fyrir almenning.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×