Innlent

Með­ferðar­stöðinni Vík lokað í sumar

Jakob Bjarnar skrifar
Sigmar segir að Willum Þór heilbrigðisráðherra hafi komið af fjöllum og sagt að það væru í gangi viðræður milli SÁÁ og sjúkratrygginga, starfshópur væri að vinna að mótun stefnu til framtíðar.
Sigmar segir að Willum Þór heilbrigðisráðherra hafi komið af fjöllum og sagt að það væru í gangi viðræður milli SÁÁ og sjúkratrygginga, starfshópur væri að vinna að mótun stefnu til framtíðar. vísir/vilhelm

Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar segir að lokunin sé vegna fjárskorts og hún megi heita skeytingarleysi gagnvart fólki með fíknisjúkdóm.

Þá verður göngudeildinni einnig lokað af sömu ástæðu eða í sex vikur.

„Fólk sem leitar sér aðstoðar á Vogi í sumar fær sem sagt ekki neina samfellu í sinni meðferð. Eftir tíu daga á Vogi tekur ekkert við, hvorki göngudeild né Vík, fyrr en eftir dúk og disk.“

Sigmar rekur að í dag séu 700 manns á biðlista hjá SÁÁ, og um hundrað manns á biðlista hjá Krýsuvík. Sumarlokun í sex vikur hjá stærstu meðferðarstöðinni bætir enn á þann vanda.

„Mér finnst þetta vera skeytingarleysi gagnvart fólki með fíknisjúkdóm því heilbrigðisráðherra svaraði mér þannig í þinginu síðasta haust að þetta myndi ekki endurtaka sig.“

Sigmar greinir frá því að hann hafi enn og aftur spurt Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra út í málið í dag og að þessar fyrirætlanir hafi komið Willum á óvart. Hann hafði ekkert vitað af þessum lokunum. Willum Þór mun hafa bent á að viðræður væru í gangi milli SÁÁ og sjúkratrygginga sömuleiðis, og að það væri starfshópur að vinna að mótun stefnu til framtíðar.

„Það er allt gott og blessað en það þarf samt að hlúa að fólki í dag. Fólk veikist þótt nefndir séu að störfum og samningaviðræður í gangi. Þetta er einfaldlega banvænn sjúkdómur og hann fer ekki í sumarfrí. Þetta er glatað.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×