Fótbolti

Stefán Teitur skoraði í ó­væntum sigri á Sverri Inga og fé­lögum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stefán Teitur og félagar í Silkeborg unnu frábæran sigur í kvöld.
Stefán Teitur og félagar í Silkeborg unnu frábæran sigur í kvöld. Silkeborg IF

Silkeborg vann heldur óvæntan 3-0 heimasigur á Midtjylland í eina leik dagsins í dönsku úrvalsdeild karla. Stefán Teitur Þórðarson var meðal markaskorara.

Silkeborg tók í kvöld á móti Midtjylland. Gestirnir eru í harðri toppbaráttu við Bröndby og FC Kaupmannahöfn á meðan heimamenn eru með fulla einbeitingu á bikarúrslitaleiknum gegn AGF þann 9. maí.

Það var þó ekki að sjá á leik liðanna í kvöld en heimamenn gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik. Tonni Adamsen kom Silkeborg yfir á 17. mínútu, Anders Klynge tvöfaldaði forystuna og Stefán Teitur fullkomnaði frábæran fyrri hálfleik með marki á 45. mínútu.

Staðan 3-0 í hálfleik og reyndust það lokatölurnar í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Silkeborg í síðustu fimmtán deildarleikjum.

Midtjylland er því áfram í 3. sæti með 52 stig, líkt og FC Kaupmannahöfn sem er sæti ofar með betri markatölu. Bröndby trónir á toppnum með 56 stig þegar fimm umferðir eru eftir. Silkeborg er í 6. sæti með 32 stig.

Í Svíþjóð var Kolbeinn Þórðarson nálægt því að skora í 3-0 útisigri á Brommapojkarna í úrvalsdeildinni þar í landi. Markvörður Brommapojkarna varði hins vegar skot Kolbeins út í teiginn og Laurs Skjellerup fylgdi eftir svo Kolbeinn fékk skráða á sig stoðsendingu.

Kolbeinn nældi sér einnig í gult spjald áður en hann var tekinn af velli þegar fimm mínútur voru til loka venjulega leiktíma. Þá nældi Andri Fannar Baldursson sér einnig í gult spjald í 2-0 sigri Elfsborg á Sirius. 

Bæði Gautaborg og Elfsborg eru með sjö stig eftir sex leiki. Sitja þau í 12. og 13. sæti af 16 liðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×