Fótbolti

Albert skoraði þegar Genoa gull­tryggði sætið í efstu deild

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Albert Guðmundsson heldur áfram að spila vel.
Albert Guðmundsson heldur áfram að spila vel. Getty Images/Simone Arveda

Albert Guðmundsson og félagar í Genoa tryggðu í kvöld sæti sitt í Serie A, ítölsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu, með 3-0 sigri á Cagliari.

Þó leikurinn hafi verið jafnari en lokatölur gefa til kynna, allavega ef horft er í tölfræðina, þá má segja að tvö mörk á tíu mínútna kafla í fyrri hálfleik hafi gert svo gott sem út um leikinn.

Hinn norski Morten Thorsby kom Genoa yfir á 17. mínútu og hinn danski Morten Frendrup tvöfaldaði forystuna tíu mínútum síðar, staðan 2-0 í hálfleik.

Á 63. mínútu gerði svo hinn íslenski Albert Guðmundsson endanlega út um leikinn. Var þetta 14. mark Alberts í 32 deildarleikjum á leiktíðinni. Það er talið næsta víst að hann verði ekki leikmaður liðsins á næstu leiktíð en fjöldi stórliða er á eftir kappanum.

Lokatölur í kvöld 3-0 og Genoa hefur endanlega tryggt sæti sitt í Serie A. Eftir sigur kvöldsins er liðið með 42 stig í 12. sæti þegar fjórar umferðir eru til loka tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×