Viðskipti innlent

Landa stórum sölusamningi

Árni Sæberg skrifar
Róbert Wessman er forstjóri Alvotech.
Róbert Wessman er forstjóri Alvotech.

Alvotech tilkynnti í dag að nýgerður samningur í Bandaríkjunum um dreifingu og sölu á líftæknilyfjahliðstæðu Alvotech í háum styrk með útskiptileika við Humira (adalimumab) sé við Quallent Pharmaceuticals, dótturfélag Cigna. Samningurinn sé gerður með samþykki Teva Pharmaceuticals, sem er samstarfsaðili Alvotech í Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alvotech til Kauphallar. Þar segir að stefnt verði að því að viðskiptavinir Quallent geti fengið lyfið án greiðsluþátttöku þeirra. Áður hafði verið greint frá því að samningurinn væri í höfn, en ekki var tilgreint við hvern hann var.

„Við fögnum því að ganga til samstarfs við Alvotech um aukið aðgengi sjúklinga að adalimumab-ryvk. Það er markmið okkar að geta boðið flestum sjúklingum lyfið án greiðsluþátttöku þeirra. Markmið Quallent er að bjóða sjúklingum örugg og hagkvæm lyf í samstarfi við lyfjafyrirtæki eins og Alvotech. Þetta samstarf auðveldar okkur að ná þessu markmiði,“ er haft eftir John Caufield, forstjóra Quallent Pharmaceuticals Health, LLC.

Skref í átt að auknu aðgengi

„Alvotech tryggði sér í febrúar síðastliðnum einkarétt í tólf mánuði eftir að sala hefst, til að bjóða í Bandaríkjunum líftæknilyfjahliðstæðu í háum styrk með útskiptileika við Humira. Um 85 prósent af sölu Humira í Bandaríkjunum er það lyfjaform sem Alvotech hefur fengið markaðsleyfi fyrir. Við höfum þar af leiðandi fundið fyrir mjög sterkum áhuga innkaupaaðila og heilbrigðistryggingafyrirtækja í Bandaríkjunum. Með þessum samningum stígum við enn eitt skrefið í átt að auknu aðgengi sjúklinga að hagkvæmari líftæknilyfjum,“ er haft eftir Róberti Wessman, stjórnarformanni og forstjóra Alvotech.


Tengdar fréttir

Annað markaðsleyfi í höfn í Bandaríkjunum

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur veitt Alvotech markaðsleyfi fyrir Selarsdi (ustekinumab-aekn), líf­tækni­lyfja­hlið­stæðu við Stelara. Gert er ráð fyrir að Selarsdi komi á markað í Bandaríkjunum um eða eftir 21. febrúar 2025 í samræmi við samkomulag við framleiðanda frumlyfsins Stelara

Heilbrigðistryggingafélag tekur lyf Alvotech upp á sína arma

Bandaríska heilbrigðistryggingafélagið Cigna hyggst bjóða upp á líftæknilyfjahliðstæður af gigtarlyfinu Humira án þess að viðskiptavinir þurfi að greiða sérstaklega fyrir lyfið. Alvotech, sem er býður upp á slíkt lyf, hefur hækkað um 3,7 prósent það sem af er degi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×