Erlent

Rússar sagðir nota skotflaugar frá Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar týna upp sprengjubrot eftir nýlega árás á Karkív.
Lögregluþjónar týna upp sprengjubrot eftir nýlega árás á Karkív. AP/Andrii Marienko

Eldflaug sem lenti á borginni Karkív í norðausturhluta Úkraínu þann 2. janúar var af gerðinni Hwasong-11 og kemur frá Norður-Kóreu. Kaup Rússa á skotflaugunum frá Norður-Kóreu eru í trássi við samþykktir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um bann við vopnakaupum frá einræðisríkinu.

Norður-Kórea hefur verið beitt þvingunum og refsiaðgerðum vegna eldflauga- og kjarnorkuvopnaáætlana ríkisins frá árinu 2006. Þá hafa þær aðgerðir ítrekað verið hertar á undanförnum árum.

Í skýrslu sem sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna unnu fyrir öryggisráðið og blaðamenn Reuters hafa komið höndum yfir, kemur fram að brak úr Hwasong-11 hafi fundist í Karkív. Þeir segja ekkert benda til þess að skotflaugin hafi verið framleidd í Rússlandi og þá bendi gögn frá yfirvöldum í Úkraínu til þess að henni hafi verið skotið frá Rússlandi.

Í skýrslunni segir að það bendi til þess að Rússar hafi brotið gegn ályktunum öryggisráðsins, þar sem þeir hafa sjálfir fast sæti og neitunarvald. Rússar beittu neitunarvaldi þeirra í öryggisráðinu í síðasta mánuði til að binda enda á fimmtán ára eftirlit með eldflauga- og kjarnorkuvopnaframleiðslu í Norður-Kóreu.

Rússar hafa verið sakaðir um að kaupa umfangsmikið magn vopna og skotfæra frá Norður-Kóreu en yfirvöld í Kreml og í Pyongyang hafa þrætt fyrir það. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, funduðu í Rússlandi í fyrra og hétu því að styrkja samband ríkjanna varðandi hernað.

Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa sakað Rússa um að skjóta minnst níu skotflaugum frá Norður-Kóreu að Úkraínu. Karkív, sem er næst stærsta borg landsins og liggur nærri landamærum Rússlands, hefur á undanförnum mánuðum orðið fyrir linnulausum árásum Rússa.

Við þessar árásir og aðrar á aðrar borgir í Úkraínu hafa Rússar notað mikið magn eldflauga, stýriflauga og skotflauga. Í gær féllu fimm og á fjórða tug særðust þegar eldflaug var notuð til að varpa klasasprengjum á borgina Odessa við strendur Svartahafs.


Tengdar fréttir

Fyrstu hergögnin eiga að berast til Úkraínu á næstu klukkustundum

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, skrifaði seinni partinn í dag undir ný lög um hernaðaraðstoð handa Úkraínumönnum. Eftir það sagði hann að hergögn myndu byrja að berast til Úkraínu „á næstu klukkustundum“ sem gæti þýtt strax í kvöld.

Segjast hafa skotið niður dýrmæta sprengjuflugvél

Úkraínskir hermenn segjast hafa skotið niður verðmæta rússneska sprengjuflugvél. Flugvélin er af gerðinni Tu-22M3 en þær eru meðal annars notaðar til að skjóta eld- og stýriflaugum að Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×