Erlent

Hundruð lög­reglu­manna í við­bragðs­stöðu vegna mót­mæla í UCLA

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mótmælendur hafa komið upp tálmum og fylgjast með aðgerðum lögreglu úr fjarska.
Mótmælendur hafa komið upp tálmum og fylgjast með aðgerðum lögreglu úr fjarska. AP/Jae C. Hong

Hundruð lögreglumanna í óeirðarbúnaði eru nú í viðbragðsstöðu á lóð UCLA í Kaliforníu í Bandaríkjunum en til stendur að loka tjaldbúðum sem komið hefur verið upp við háskólann og reka mótmælendur á brott.

Nemendur við UCLA hafa, líkt og háskólanemar víða um Bandaríkin, efnt til mótmæla vegna stríðsátakanna á Gasa og til stuðnings Palestínumönnum. Til átaka kom í tjaldbúðunum á þriðjudag, þegar grímuklæddir einstaklingar réðust inn í búðirnar með barefli.

Mótmælendum hefur nú verið sagt að hafa sig á brott en eiga að öðrum kosti hættu á að verða handteknir. Hundruð hafa lagt leið sína að búðunum til að sýna stuðning sinn við mótmælendur.

Kennslu hefur verið aflýst í bili.

Lögregla leysti upp mótmæli við Columbia University og City College of New York á þriðjudagskvöld. Um 280 voru handteknir. Þá voru fjórtán handteknir við Tulane University í New Orleans og sautján við University of Texas í Dallas.

Lögregla lét einnig til skarar skríða við fjölda annarra háskóla á þriðjudag og í gær.

Samkvæmt AP hafa yfir 1.600 einstaklingar verið handteknir í mótmælaöldunni síðustu daga, í 38 aðskildum tilvikum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×