Viðskipti innlent

Vinnunetföng al­geng leið fyrir hakkara til að brjótast inn í ís­lensk fyrir­tæki

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Björn Orri Guðmundsson, framkvæmdastjóri Aftra.
Björn Orri Guðmundsson, framkvæmdastjóri Aftra. Aðsend/Getty

Vinnunetföng sem notuð eru í persónulegum erindagjörðum geta orðið hluti af alvarlegum öryggisbresti fyrir tölvukerfi vinnuveitandans. Mörg dæmi eru um að netföng starfsfólks birtist á mismunandi vefsíðum sem eru ótengd vinnuveitandanum, eins og X (Twitter), Einkamál, Strava, Bland.is og jafnvel á klámsíðum.

Björn Orri Guðmundsson er framkvæmdastjóri Aftra, íslensks hugbúnaðs sem er sproti frá netöryggisfyrirtækinu Syndis. Hugbúnaðurinn kembir tölvukerfi og rafræn fótspor fyrirtækja á netinu til að koma auga á hugsanlega veikleika sem hakkarar kunna að notfæra sér.

Að sögn Björns eru vinnunetföng sem nýtt eru í persónulegum erindagjörðum eitt algengasta hættumerkið sem kemur upp þegar Aftra gerir úttektir á íslenskum fyrirtækjum.

„Þegar við notum vinnunetfangið okkar á þennan hátt skiljum við eftir okkur rafræn fótspor sem fjölgar mögulegum árasarflötum gagnvart vinnuveitandanum. Það sem eykur hættuna enn frekar er að við erum alltof gjörn á að endurnýta lykilorðið okkar. Þetta gæti orðið að alvarlegum öryggisbresti sem hakkarar gætu notfært sér.“

Björn nefnir sem dæmi að ef hakkara tekst að brjótast inn á síðu sem hefur takmarkað öryggi gæti hann komist yfir innskráningarupplýsingar eða lykilorð og nýtt þau gögn til þess að brjótast inn á fleiri staði, svo sem tölvukerfi vinnuveitanda. Þess vegna sé afar mikilvægt að nota ekki sama lykilorðið á mörgum stöðum.

Þá segir Björn að það komi stjórnendum og starfsfólki oft í opna skjöldu þegar þeim er bent á að vinnunetföng séu notuð í persónulegum erindagjörðum. Fólk átti sig gjarnan ekki á hættunni og því sé nauðsynlegt að vekja athygli á henni.

Hvað er til ráða?

Ekki nýta vinnunetföng í persónulegum erindum. Mörg fyrirtæki setja t.a.m strangar reglur um netföng starfsfólks og hvernig þau séu notuð.

Aldrei endurnýta sama lykilorðið á mörgum stöðum. Góð leið er að nota lykilorðabanka til að halda utan um lykilorðin sín.

Stundum er betra að búa til “lykilsetningar” sem er auðveldara að muna.

Hafið kveikt á tvöfaldri auðkenningu þar sem það er í boði, eins og Facebook eða Instagram.


Tengdar fréttir

Rússneskir hakkarar taldir bera ábyrgð á tölvuárás á HR

Netöryggissérfræðingar og starfsmenn Háskólans í Reykjavík hafa unnið frá því í gærmorgun við að koma kerfum háskólans af stað og endurheimta gögn í kjölfar tölvuárásar sem gerð var á skólann. Talið er að rússneski tölvuárásarhópurinn Akira beri ábyrgð á árásinni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×