Sport

Segir verð­launa­fé valda sundrung meðal í­þrótta­fólks

Sindri Sverrisson skrifar
Spretthlauparinn Allyson Felix hefði svo sannarlega rakað inn verðlaunafé á Ólympíuleikum ef það hefði verið í boði þegar hún keppti.
Spretthlauparinn Allyson Felix hefði svo sannarlega rakað inn verðlaunafé á Ólympíuleikum ef það hefði verið í boði þegar hún keppti. Getty/Tim Clayton

Sir Steve Redgrave, fimmfaldur ólympíumeistari í róðri, er alls ekki hrifinn af ákvörðun alþjóða frjálsíþróttasambandsins um að veita í fyrsta sinn verðlaunafé á Ólympíuleikunum í París í sumar.

Tilkynnt var í apríl að ólympíumeistarar allra greina í frjálsum íþróttum myndu fá 50.000 Bandaríkjadali hver í verðlaun, eða rúmar sjö milljónir króna.

Þar með verður alþjóða frjálsíþróttasambandið fyrst allra í sögunni til að veita verðlaunafé á Ólympíuleikunum, og að mati Redgrave er það ekki í anda ólympíuhugsjónarinnar.

Á Ólympíuleikunum 2028 í Los Angeles verður svo gengið skrefi lengra því þá fá gull-, silfur- og bronsverðlaunahafar í frjálsum íþróttum allir verðlaun.

„Allir þessir gullverðlaunahafar í frjálsum íþróttum geta unnið sér inn umtalsverðar fjárhæðir bæði fyrir og svo sannarlega eftir leikana í París, svo þarna er verið að gefa fólki peninga sem þarf þá ekki,“ sagði Redgrave við BBC.

Steve Redgrave, annar frá vinstri, vann fimm ólympíugullverðlaun í róðri á sínum tíma.Getty/Ross Kinnaird

„Þarna verða til „við og þau“-kringumstæður,“ sagði Redgrave sem er í fjórða sæti yfir þá Breta sem unnið hafa flest ólympíugull, eftir að hafa unnið fimm slík á árunum 1984-2000.

„Ég spjaraði mig ágætlega – þó að ég hafi nú fengið meiri pening eftir að ég hætti en þegar ég var að róa – en ég er á móti þessu,“ sagði Redgrave og bætti við að hann vildi frekar að peningunum yrði dreift á milli annarra íþróttagreina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×