Upp­gjör: Valur - Víkingur 7-2 | Sýning hjá Amöndu og Nadía skoraði í stór­sigri Vals­kvenna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. Vísir/Pawel

Valskonur eru áfram með fullt hús stiga í Bestu deild kvenna eftir 7-2 stórsigur á Víkingum að Hlíðarenda í kvöld. Nadía Atladóttir skoraði eitt marka Vals gegn sínum gömlu félögum.

Leikurinn byrjaði heldur betur fjörlega því strax eftir 40 sekúndur kom Hafdís Bára Höskuldsdóttir Víkingum yfir með góðum skalla. Valskonur lentu sömuleiðis undir snemma leiks þegar liðin mættust í Meistarakeppni KSÍ en í þetta skiptið voru þær fljótar að jafna sig.

Fanney Inga Birkisdóttir grípur fyrirgjöf Víkinga.Vísir/Pawel

Þær jöfnuðu metin strax á 12. mínútu og náðu 2-1 forystu skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks eftir að hafa pressað töluvert á Víkinga eftir jöfnunarmarkið.

Víkingur byrjaði seinni hálfleik ágætlega en síðan tóku Valskonur algjörlega yfir. Amanda Andradóttir var í sérflokki og sýndi á köflum frábær tilþrif. Valskonur bættu hverju markinu við á fætur öðru. Eitt þeirra skoraði Nadía Atladóttir sem skipti frá Víkingi til Vals skömmu áður en Besta deildin hófst.

Valur - Víkingur besta deild kvenna Sumar 2024Vísir/Pawel

Það bætti síðan ekki úr skák fyrir Víkinga að markvörðurinn Katla Sveinbjörnsdóttir þurfti að fara meidd af velli á 79. mínútu í stöðunni 5-1. Þar sem Víkingar voru ekki með varamarkvörð fór útileikmaðurinn Emma Steinsen Jónsdóttir í markið og gat lítið gert við mörkunum tveimur sem Valskonur bættu við. 

Víkingar klóruðu í bakkann úr vítaspyrnu í lokin en Valur fagnaði að lokum 7-2 sigri og er því áfram með fullt hús stiga í Bestu deildinni.

Atvik leiksins

Vítaspyrnan sem Valskonur fengu í uppbótartíma fyrri hálfleiks komu þeim í forystu á góðum tíma. Valsliðið hafði náð töluverðri pressu á vörn Víkinga mínúturnar á undan en gestirnir virtust vera að ná að halda jöfnum leik fram að hálfleiksflauti.

Valur - Víkingur besta deild kvenna Sumar 2024

Það tókst ekki því Rachel Diodati braut klafaulega af sér og Amanda Andradóttir skoraði örugglega úr vítaspyrnunni. Að fara með 2-1 stöðu inn í hálfleikinn breytti vafalaust uppleggi John Andrews þjálfara Víkinga fyrir síðari hálfleikinn.

Stjörnur og skúrkar

Amanda Andradóttir var algjörlega frábær í liði Vals.. Hún var alltaf hættuleg þegar hún fékk boltann og stoðsending hennar í fjórða marki Vals var stórglæsileg. Hún gaf alls fjórar stoðsendingar í leiknum og skoraði eitt mark sjálf. Sannkölluð stjörnuframmistaða.

Amanda Andradóttir fagnar marki sínu í kvöld.Vísir/Pawel

Rachel Diodati var nýkomin inn á völlinn þegar hún fékk dæmda á sig vítaspyrnu fyrir klaufalegt brot undir lok fyrri hálfleiks. Vissulega erfitt að koma jafn skyndilega inn af bekknum og hún gerði en innkoma hennar í heild var ekki góð.

Dómarinn

Twana Khalil Ahmed dæmdi þennan leik nokkuð vel. Báðir vítaspyrnudómarnir virtust réttir og gulu spjöldin fóru upp við réttar aðstæður sömuleiðis og alls ekki of oft.

Twana Khalid Andrews dæmdi leikinn í kvöld.Vísir/Pawel

Í seinni hálfleik missti Twana þó af atviki þegar Katla Sveinbjörnsdóttir og Svanhildur Ylfa Dagbjartsdóttir leikmenn Víkinga lentu í hörðum árekstri. Hann missti þó ekki af árekstrinum sjálfum heldur þegar Berglind Rós Ágútsdóttir leikmaður Vals ýtti létt á bak Svanhildar áður en hún lenti á Kötlu.

Áreksturinn harðiVísir/Pawel

Að mínu mati hefði átt að spjalda Berglindi Rós sem hefði þar með fengið sitt annað gula spjald í leiknum. Að ýta á bak leikmanns í þessari stöðu er stórhættulegt og vonandi verður Katla ekki lengi frá en hún virtist sárþjáð og þurfti að fara af velli skömmu eftir atvikið.

Stemmning og umgjörð

Það var ekkert sérstök mæting á Hlíðarenda í kvöld og lítil stemmning í stúkunni. Það heyrðist betur í stuðningsmönnum Víkinga sem héldu áfram þó staðan á töflunni væri ekki góð. Umgjörð Valsmanna ágæt en það er spurning hvort KSÍ og HSÍ þurfi ekki aðeins að ræða leiktíma á leikjum Vals í fótbolta og handbolta í framtíðinni.

Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir kom af bekknum og skoraði.Vísir/Pawel

Leikur Vals og Aftureldingar í Olís-deild karla hófst hér á Hlíðarenda klukkan 19:40 og það var vitað mál að þá yrði leik Vals og Víkings ekki lokið. Þegar síðari hálfleikur hófst í knattspyrnuleiknum byrjaði upphitunartónlist fyrir handboltaleikinn og hún var ekki spiluð lágt.

Það var því frekar erfitt að vera í blaðamannastúkunni með dúndrandi teknótónlist í gangi og hressa handboltaaðdáendur í sama sal og við blaðamenn. Þetta var eiginlega ekki boðlegt.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira